„Lynne Cheney verðandi varaforsetafrú er engin skræfa og ekki kjáni. Í vitnisburði um ofbeldi í fjölmiðlum fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings í september hikaði Cheney ekki við að benda á þá sem hún telur menga bandaríska menningu með með óbærilegum viðbjóði og sóðakjafti. Ólíkt Tipper Gore, sem 15 árum áður ásakaði lítt þekktar grúppur á borð við WASP og Mentors um sóðapopp, lagði Cheney til atlögu við einn vinsælasta tónlistarmann samtímans, Eminem, öðru nafni Marshall Mathers sem nefnir sig einnig Slim Shady. Yfir 7 milljónir eintaka hafa selst af nýjustu plötu Eminems sem kom út í sumar.“ Svo segir Brian Doherty frá í desemberhefti tímaritsins Reason.
„Það er kominn tími til að menn verði ábyrgir orða sinna. Til dæmis Marshall Matters sem í lagi sínu „Kill You“ ímyndar sér ánægjuna af því að myrða konur sem hann rekst á, „eiginkonur, nunnur og druslur““, sagði Cheney fyrir þingnefndinni. Brian Doherty er ekki sammála verðandi varaforsetafrú og segir: „Það sem Cheney og ýmsir aðrir gagnrýnendur Eminem líta framhjá eða vilja ekki viðurkenna er að Eminem er ekki aðeins metsöluhöfundur heldur einn besti poppari samtímans. Hann er einstakur orðhákur og ókrýndur meistari ögrunarinnar; þess tjáningarforms sem hann hefur valið sér.“
Brian Doherty skrifar að þótt einhverjum þyki textar Eminems óþægilegir áheyrnar sé fráleitt að halda því fram að einhver taki þá bókstaflega. Hver tekur til dæmis alvarlega disk sem hefst á orðunum „Tilkynning frá hinu opinbera“ og lýkur á því að rödd hins opinbera tilkynnir þér „Slim Shady hefur fengið nóg af þér mun drepa þig“? Þótt börn og unglingar horfi mikið á Looney Tunes dettur þeim ekki í hug að rétta föður sínum dýnamíttúpu í stað vindils. Doherty segir svo: „Í dag er vísasta leiðin til að móðga fullorðna að úthrópa homma og konur og hvetja til ofbeldis. Eða eins og Eminem segir sjálfur í lagi sínu Criminal „Helmingurinn af því sem ég segi á að gera þig óðan“. Þetta er dæmigerð unglingauppreisn og þótt hún sé vafalaust pirrandi fyrir fullorðna fólkið er hún ekki af illum vilja.“
Doherty lýkur grein sinni á eftirfarandi orðum: „Þótt verk Eminems séu hneykslanleg eru þau listileg og oft afar fyndin (fyrir þá sem enn geta hlegið af hnyttilegum ýkjum og gríni að heilögum kúm). Cheney áttar sig ekki á þessu enda vita þeir sem gagnrýna listamenn á pólítískum forsendum yfirleitt ekki hvað þeir eru að tala um. Við þurfum því ekki einu sinni að vísa til stjórnarskrárbundins tjáningarfrelsis til að láta gagnrýni þeirra sem vind um eyru þjóta. Ef þú er harðari í afstöðu þinni gegn fávíslegum tilraunum til að stjórna lífi þínu og hvernig þú elur börn þín upp gætirðu tekið undir með þegar Eminem syngur „settu einn fingur hvorrar handar á loft“.“