Landvernd, Umhverfisverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarsamtök Íslands eru samtök sem láta gjarna þannig að baráttumál þeirra njóti mikils stuðnings meðal þjóðarinnar. Nöfn þeirra benda einnig til þess að stór hluti þjóðarinnar styðji samtökin og sé jafnvel á félagaskrá þeirra. Því mætti ætla að þessi samtök séu ekki á flæðiskeri stödd. Ætla mætti að félagsgjöld og styrkir frá fyrirtækjum standi undir kostnaði við starfsemi félaga sem vinna svo einlæglega að hagsmunum okkar. Að minnsta kosti myndi skjóta skökku við ef það kæmi á daginn að þessi félög nytu lítils stuðnings meðal landsmanna, félagsgjöld hrykkju ekki fyrir rekstrinum og fyrirtæki kærðu sig ekki um að styðja þau. En þannig er það nú samt.
Landvernd, Umhverfisverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarsamtök Íslands hafa fengið að kenna á því að hinn almenni maður kærir sig ekki um að styðja þau. Þess vegna hafa þessi samtök leitað til Alþingis um að almenningur verði neyddur til að styrkja samtökin. Alþingi hefur tekið vel í þetta, enda mikilvægt að sporna gegn eyðslu og þenslu, og allt útlit er fyrir að landsmenn verði neyddir til að greiða Landvernd 3 milljónir króna og Umhverfisverndarsamtökum Íslands 2 milljónir króna á næsta ári. Hin alþjóðlega fjárplógsstarfsemi í nafni umhverfisverndar er komin til Íslands.
Ein ástæða þess að þessi samtök eru svo rúin trausti að þau þurfa að gerast beiningamenn hjá fjárlaganefnd Alþingis kann að vera sú krafa þeirra að Íslendingar staðfesti svonefnda Kyoto bókun um takmarkanir á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þessi samtök hafa tekið þátt í því með liðsmönnum stjórnarandstöðunnar að úthrópa Íslendinga sem umhverfissóða og útlæga úr samfélagi siðaðra þjóða fyrir það að staðfesta ekki Kyoto bókunina. Í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar á dögunum kom fram að eftirtalin 30 ríki höfðu fullgilt eða gerst aðilar að Kyoto-bókuninni hinn 20. nóvember 2000: Antígva og Barbúda, Aserbaídsjan, Bahamaeyjar, Barbadoseyjar, Bólivía, Ekvador, El Salvador, Fídjíeyjar, Georgía, Gínea, Gvatemala, Hondúras, Jamaíka, Kíribatí, Kýpur, Lesótó, Maldíveyjar, Mexíkó, Miðbaugs-Gínea, Míkrónesía, Mongólía, Niue, Níkaragva, Palau, Panama, Paragvæ, Trínidad og Tóbagó, Túrkmenistan, Túvalú og Úsbekistan. Eru þá upptaldar hinar siðuðu þjóðir heims.