Mánudagur 4. desember 2000

339. tbl. 4. árg.

„Gangi spáin eftir mun það hafa geigvænlegar afleiðingar á lífsskilyrði milljóna manna um allan heim, jafnvel þótt miðað sé við lægri mörk spárinnar“, sögðu þingmennirnir Kolbrún Halldórsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir í grein í Morgunblaðinu á laugardaginn um þá spá að hiti andrúmslofts jarðar muni hugsanlega hækka um 1,5 til 6,0 °C á næstu öld vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Þingmennirnir vilja að iðnríkin dragi úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og að við tryggjum okkur þannig gegn hugsanlegum loftslagsbreytingum. Eins og svo oft áður þegar fulltrúar úr flokkum þeirar Kolbrúnar og Þórunnar taka til máls er kostnaður aukaatriði og ekki á hann minnst. Það er einnig merkilegt hvað umhverfisverndarsinnar hafa þungar áhyggjur af auknum gróðurhúsaáhrifum. Þeir hafa haldið því fram á undanförnum áratugum að orkukreppa blasi við þar sem olía, kol og gas séu alveg að klárast en notkun á þessum orkugjöfum er kennt um hin hugsanlega auknu gróðurhúsaáhrif. En sú krafa er yfirleitt ekki gerð til umhverfisverndarsinna að þeir séu samkvæmir sjálfum sér og verður ekki farið fram á það hér fremur en í öðrum fjölmiðlum.

En hverjar eru þessar „geigvænlegu afleiðingar“ sem þingmennirnir boða, hvað kostar að takast á við þær og hvað kostar að verjast þeim? Ýmsar kannanir hafa verið gerðar á því hvað kostar að fást við afleiðingar aukinnar hlýnunar. Í bók Wilfreds Beckermans Through Green-Colored Glasses er sagt frá könnun Williams Clines við Intitute for International Economics en samkvæmt henni er tífalt dýrara að hætta notkun jarrðefnaeldsneytis en takst á við hinar „geigvænlegu afleiðingar“. Í bók Björns Lomborgs Hið sanna ástand heimsins sem kom út á íslensku í haust er kostnaðurinn áætlaður tvöfalt hærri fyrir bæði tilvik þ.e. hlutfallið er svipað. Samkvæmt þeim könnunum sem Lomborg vísar í er áttfalt dýrara að ná jafnvægi í hita en að gera ekki neitt. Í bókinni Climate of Fear eftir Thomas Gale Moore er einnig gerð grein fyrir nokkrum þessara kannana og niðurstaða höfundar er þessi: „Fyrir flesta íbúa heimsins verður kostnaður vegna hlýnunar á næstu öld afar lítill eða þá um gróða verður að ræða. Flestir verða betur settir í hlýrra loftslagi. Sjálfsagt er að aðstoða íbúa þeirra fátæku landa sem gætu orðið fyrir mestu tjóni.“
Það bendir því flest til þess að tryggingin sem Kolbrún og Þórunn vilja að keypt sé gegn hugsanlegum neikvæðum afleiðingum aukinna gróðurhúsaáhrifa sé margfalt dýrari en það tjón sem getur orðið!