Ýmsir verða stundum dálítið hissa þegar forystumenn stjórnmálaflokkanna skeiða fram á sviðið til að skýra út fyrir okkur út á hvað stjórnmálin ganga. Í ljós kemur að við höfum misskilið í grundvallaratriðum hlutverk stjórnmálaflokka. Þetta átti a.m.k. við í fyrradag þegar Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar hóf upp raust sína á Skjá einum. Tilefni heimsóknarinnar í Silfur Egils að þessu sinni, var nýafstaðin fundarherferð hans og Margrétar Frímannsdóttur um landið þar sem verið var að „prófa hugmyndir Samfylkingarinnar á kjósendum“. Því það er útilokað að stefnan væri fullmótuð án slíkrar prófunar. Það er sem sagt misskilningur að stjórnmálaflokkar standi af einurð fyrir einhver málefni og reyni að vinna þeim brautargengi hjá kjósendum. Hið nýja hlutverk stjórnamálaflokka, samkvæmt því sem Össur Skarphéðinsson segir, er að prófa hugmyndir á kjósendum og ákveða því næst hver stefna flokksins er, athuga fyrst hvað er vinsælast og gera það að baráttumáli. Raunar þarf þetta ekki að koma á óvart því Össur hefur verið óþreytandi við að hlaupa eftir því sem hann heldur að sé efst á baugi í þjóðarsálinni. Hann hefur jafnframt verið í a.m.k. þremur stjórnmálaflokkum og ritstýrt tveimur flokksmálgögnum. Hann hefur því ekki aðeins prófað hinar og þessar hugmyndir á kjósendum heldur einnig á sjálfum sér.
Í viðtalinu á Skjá 1 lýsti Össur því jafnframt yfir að ef hann væri fjármálaráðherra myndi hann ekki fallast á þær launakröfur sem forystumenn félags framhaldsskólakennara gera fyrir hönd sinna félagsmanna. Jafnvel Steingrímur J. Sigfússon formaður VG treystir sér ekki til að taka undir þessar kröfur. Það má ætla að þegar þessir tveir telja sig ekki geta krækt í nokkur prósentubrot fyrir næstu skoðanakönnun með því að lýsa yfir stuðningi við kennaraforystuna sé orðið erfitt um vik hjá henni. Verkfallið sjálf hefur þar að auki merkilega lítil áhrif í þjóðfélaginu. Það er helst að umferðin sé minni á morgnana, afgreiðslan á pizzastöðunum skjótari og betri nýting á kvikmyndahúsunum.
Vef-Þjóðviljinn hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að besta leiðin til að bæta skólastarfið og kjör nemenda og kennara sé að kennarar taki sjálfir við rekstri skólanna og skólar keppi um nemendur eins og önnur fyrirtæki um viðskiptavini. Vef-Þjóðviljans vegna mætti gefa kennurum skólana ef það þyrfti til að koma skólunum í einkarekstur og samkeppni. Ætli kennarar hefðu jafnmikla löngun til að loka skólunum með verkfalli ef þeir ættu þá sjálfir? Ætli nemendur og foreldrar sýndu verkfalli jafnmikið andvaraleysi ef þeir tækju meiri þátt í að greiða kostnað við skólagönguna beint?