Þriðjudagur 7. nóvember 2000

312. tbl. 4. árg.

Á miðnætti hófst það sem kallað er verkfall framhaldsskólakennara. Það hefur þá merkingu að kennarar hætta að stunda vinnu sína án þess þó að segja upp störfum. Það sem meira er þá meina kennarar öðru fólki að taka upp þráðinn og kenna framhaldsskólanemum. Til þessa er heimild í lögum og munu framhaldsskólakennarar nú geta haft menntun af ungu fólki eins lengi og þeim hentar. Nú má svo sem halda því fram að kennarar geri þetta ekki að gamni sínu og að þeir séu ekki of haldnir af launum sínum. Það réttlætir þó varla að þeir hindri ungt fólk í að sækja sér menntun eða hindri þá sem vilja aðstoða það við menntunina að gera það. Kennarar beita aðra órétti við að ná fram „rétti“ sínum og njóta til þess aðstoðar laga.

Eitt dæmi um þá afkáralegu stöðu sem upp kemur í þessu verkfalli er í Verkmenntaskólanum á Akureyri, þar sem skólameistarinn hyggst halda skólanum opnum svo ungmennin geti stundað nám sitt – sjálfsnám í þessu tilviki. Hann segir að hann muni verða til taks „og stappa stálinu í krakkana,“ en hann megi „ekkert fara að aðstoða þau með námið, enda væri það verkfallsbrot.“ Hann má sum sé standa yfir þeim og hvetja þau til lestrar, en spyrji nemendur á stærðfræðibraut hann hvað tveir plús tveir eru mun hann verða að neita að gefa rétt svar. Óljóst er að vísu hvort hann má gefa rangt svar. Vefþjóðviljinn hyggst nú gerast svo djarfur að láta reyna á „verkfallsbrot“ með því að upplýsa framhaldsskólanema sérstaklega um það að í dag eru 450 ár frá því höfuð Jóns Arasonar biskups var skilið frá herðum hans. Synir hans tveir fengu sömu meðferð, en þeir höfðu staðið með honum í blíðu og stríðu og sagt hverjum sem heyra vildi að hann stundaði skírlífsheit sitt af staðfestu.

Eins og áður hefur verið bent á hér í Vefþjóðviljanum er til einföld lausn á því vandamáli sem launamál kennara eru, og hún er sú að gera skólana að einkaskólum og láta eðlileg lögmál gilda um skólastarfið í stað þess að skólinn sé stirðbusaleg stofnun. Með bættum rekstri mætti hækka laun kennara og bæta menntun nemendanna. Vel má hugsa sér að skólarnir væru í eigu kennara og skólastjórnenda og/eða foreldra. Þá gætu einnig orðið til fyrirtæki sem sérhæfðu sig í rekstri skóla og er ekki að efa að þau gætu náð betri árangri en þær stofnanir ná sem nú eru nær einráðar um menntun ungmenna. Sé áfram vilji til þess að ríkið greiði fyrir menntun ungs fólks er auðvelt að koma því við með því að láta ríkið greiða tiltekna upphæð með hverjum nemanda. Þeir skólar sem byðu tiltölulega bestu menntunina fyrir lægstu upphæðina yrðu eftirsóttastir. Þeir gætu hagrætt mest í rekstri og boðið starfsmönnum sínum, kennurunum, bestu kjörin. Á meðan ríkið eða sveitarfélögin reka skólana verða verkföll óaðskiljanlegur hluti menntunar ungs fólks á Íslandi hér eftir sem hingað til. Til skamms tíma litið er það ef til vill ekki svo bagalegt fyrir það unga fólk sem fagnaði „fríinu“ með því að fara út á lífið í gærkvöldi, en til lengri tíma litið er varla hægt að halda því fram að óbreytt ástand sé öllum fyrir bestu. Bæði kennarar og nemendur hljóta að þrýsta á um breytingar í þessa átt sé þeim alvara í baráttu sinni fyrir bættum kjörum kennara.