Í þætti sínum á Skjá 1 í gær flutti Egill Helgason ágæta tölu um þær breytingar sem orðið hafa á Íslandi og ekki síst Reykjavík á síðustu árum. Hin „íslenska sérstaða“ er ekki lengur notuð til að réttlæta hvers kyns höft, boð og bönn. Nú er óhætt að gera ýmislegt sem ekki hefur verið gert hér áður án þess að menn fái hið opinbera á bakið. Egill nefndi réttilega að þessi breyting hefur átt sér stað vegna framtaks ýmissa einstaklinga og fyrirtækja sem ögruðu yfirvaldinu með nýjungum. Þau höfðu ef til vill ekki fullan sigur í fyrstu atrennu en hristu upp í kerfinu. Taldi Egill að leyfi landbúnaðarráðherra fyrir innflutningi á fósturvísum úr norskum kúm væri til marks um jafnvel í Framsóknarflokknum væri „sérstaða Íslands“ ekki lengur næg ástæða til að vera á móti nýjungum og breytingum.
Vafalítið hefur hvergi verið jafn erfitt að koma hvers kyns breytingum og nýjungum í gegnum kerfið og í almennri verslun. Lengi var litið á kaupmenn sem óþarfan millilið og nýjar verslanir sem hreina sóun og ávísun á hærra vöruverð enda KRON með ágætar verslanir fyrir. Þannig munu hafa verið uppi raddir um það þegar verslunarmiðstöðin Glæsibær reis á sínum tíma í Álfheimum að um hreinan óþarfa væri að ræða og menn spurðu í hneykslunartóni hvort virkilega væri þörf á öllu þessu viðbótarplássi undir verslun. Hið sama gerðist þegar Kringlan reis seint á síðasta áratug. Þá höfðu menn einnig áhyggjur af verslun á Laugaveginum og spáðu dauða hennar. Í þessum flokki gagnrýnenda á Kringluna var ekki síst fólk úr miðbænum í þægilegri innivinnu með lítilli viðveru sem hefur tíma til rölta um bæinn í leit að nauðþurftum og skilur ekki annað fólk sem vill fá allt til heimilisins á einum stað á leiðinni heim úr vinnunni.
Þessa dagana rís ný verslunarmiðstöð í Smáranum í Kópavogi sem verður sú stærsta hér á landi. Til marks um að ýmislegt hefur breyst til batnaðar má nefna að enginn amast við því að margir erlendir iðnaðarmenn vinna við bygginguna og í raun er furðulega lítið nöldur yfir þessari byggingu en það kann þó að skýrast af því helstu nöldurseggir landsins hafa verið uppteknir við verndun mela á hálendinu. Þó eru einhverjir sem geta ekki á sér setið þegar gróðapungarnir úr kaupmannastétt byggja yfir starfsemi sína. Þannig ritaði einn grein á heimasíðu sína nýlega: „Maður hugsar með fullkomnum hryllingi til Smáramallsins. Ekki einungis sýna teikningar að þarna verður náð sérstöku hástigi í ljótri byggingalist – það telst víst ekki fréttnæmt á Íslandi – en fyrst og fremst óttast maður neikvæð áhrif sem þessi feiknarlega verslanamiðstöð mun hafa á byggðina hér á höfuðborgarsvæðinu.“ Og hann sagði einnig sögu af baráttu gegn nýrri verslunarhöll á Amager í Danmörku með þessum orðum: „Samkvæmt núgildandi dönskum lögum er óheimilt að reisa ferlíkið. Mörgum óar við hinum neikvæðu afleiðingum – stóraukinni bílanotkun og umferðarþunga, meiri útblástursmengun í stórborginni, dauða verslana allt í kring og meðfylgjandi hnignun borgarhverfa. En íbúar Kaupmannahafnar eru reyndar að komast að því fullkeyptu. Bygging verslunarkringlunnar á Amakri verður líklega leyfð á endanum. Peningamennirnir sem vilja komast í mikinn verslunargróða beita ógurlegum þrýstingi“. Þeir sem vilja lesa alla greinina gegn verslunargróðanum og öllu bölinu sem honum fylgir geta gert það á heimasíðu höfundar, Egils Helgasonar.