Helgarsprokið 5. nóvember 2000

310. tbl. 4. árg.

Séra Þórhallur Heimisson skrifar reglulega pistla um fjölskyldumál í DV. Vef-Þjóðviljinn hefur verið misjafnlega sammála sr. Þórhalli og jafnvel séð sig knúinn til að andæfa sumum viðhorfum hans. Þess vegna er það Vef-Þjóðviljanum aukið ánægjuefni að mega vekja athygli á pistli sem sr. Þórhallur skrifaði í DV síðastliðinn miðvikudag. Þar fjallaði sr. Þórhallur um mál sem Vef-Þjóðviljinn og fleiri hafa öðru hverju minnst á: Ný lög um fæðingarorlof. Víst er sr. Þórhallur ánægður með ýmislegt í nýju lögunum, sérstaklega væntanlega lengingu fæðingarorlofs og hann nefnir einnig að nú munu feður einnig fá rétt til að fara í fæðingarfrí.

Eru fæðingarorlofslögin vantraust á foreldra?
Eru fæðingarorlofslögin vantraust á foreldra?

En sr. Þórhallur bendir á að þar fylgir böggull skammrifi. Um væntanlega tilhögun fæðingarorlofs feðra segir sr. Þórhallur Heimisson: „Samkvæmt hinu nýja fæðingarorlofi munu mánuðirnir 9 skiptast þannig á milli foreldranna að móðirin fær 3, faðirinn 3 og síðan fá þau sameiginlega 3 mánuði til ráðstöfunar. Þessum þremur síðustu mánuðum deila þau á milli sín og eigin vild. Mánuðirnir þrír sem hvort um sig fær í fæðingarorlofi eru ekki millifæranlegir. Og hér stendur hnífurinn í kúnni.
Við skulum taka dæmi af einstæðri móður sem hefur ekkert samband við barnsföður sinn. Einstæða móðirin fær aðeins 6 mánaða fæðingarorlof. Mánuðir föðurins millifærast ekki og hún hefur engan rétt á þeim. Spurningin er hvort börn einstæðra foreldra hafi ekki sama rétt á því að vera heima hjá foreldrum sínum fyrstu níu mánuði ævinnar eins og önnur börn. Eða eru það forréttindi barna sem hafa báða foreldra sína hjá sér? Eins er það með börn foreldra þar sem annað foreldrið getur alls ekki nýtt sér sína þrjá mánuði. Þeir mánuðir falla þá niður. Hvers vegna mega foreldrar ekki sjálfir ráðstafa fæðingarorlofinu eftir eigin aðstæðum? Er það vegna þess að löggjafinn telji nauðsynlegt að beita þvingunum til þess að fá feður heim í fæðingarorlof? Það lýsir ekki miklu áliti á feðrum þessa lands.“

Það er ekki eins og sr. Þórhallur Heimisson sé einn um að benda á þetta ótrúlega ógeðfellda atriði nýju laganna. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins – samkoma sem einhverjir hefðu haldið að fjármálaráðherra myndi ekki lítilsvirða að gamni sínu – hafnaði þessari tilhögun með afgerandi hætti, Samtök atvinnulífsins gagnrýndu þetta atriði harðlega og sama gerði Félag íslenskra leikskólakennara. Í fréttabréfi Bandalags háskólamanna var talað um „misrétti í garð barna einstæðra foreldra“ en árangur allra þessara aðila hefur verið sá sami: Þeir, sem hafa reynt að sannfæra Geir H. Haarde og litla trúflokkinn sem atti honum á foraðið, hafa allir rekist á vegg. Á þeim bæ er ekki tekið við rökum en eingöngu vonað að þögnin dugi sem svar þar til allir hafi hætt að hugsa um þetta afrek þeirra.

Það er þó ekki víst að þeim verði að þeirri ósk. Hvort sem menn eru hlynntir eða andvígir þeirri stórfelldu og varanlegu aukningu skatta og ríkisútgjalda sem nýju lögin munu valda, þá geta allir sæmilegir menn sameinast um ekkert fái réttlætt það að fæðingarorlofið skuli ekki skiptast eftir aðstæðum hverrar og einnar fjölskyldu heldur fyrirskipunum fjármálaráðherra. Fyrirskipunum sem hann kýs að byggja á trúarjátningum fámennrar en ítakaríkrar femínistasellu.