Fyrir Alþingiskosningarnar í fyrra mun hafa verið prentaður bæklingur sem geymdi óhróður um Framsóknarflokkinn og að sögn ekki síst Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra. Var sagt frá því í fréttum að Íslandspóstur hefði neitað að bera bæklinginn í hús þar sem hvergi hefði komið fram hver bæri ábyrgð á ritsmíðinni. Og alla tíð síðan hefur sá sem samdi og lét prenta bæklinginn látið hjá líða að segja til sín.
Í gær bar hins vegar svo við að Gunnar Ingi Gunnarsson varaþingmaður og fyrrverandi varaformaður „Frjálslynda flokksins“ sagði svo frá að Valdimar nokkur Jóhannesson hefði staðið að bæklingnum „með vitund og samþykki Sverris Hermannssonar“ og hefði Valdimar sagt sér frá þessu sjálfur. Í viðtali við DV í gær var Valdimar hinn versti yfir því að Gunnar Ingi hefði rofið trúnað við sig. Valdimar sagði að það hefðu verið „óánægðir framsóknarmenn“ sem hefðu látið prenta þennan bækling og þeir hafi leitað til frjálslyndra um samstarf. Valdimar sagðist alls ekki hafa staðið að þessu framtaki og bætti við: „Það eina sem ég gerði var að koma þessum mönnum í samband við prentsmiðju sem tók að sér að prenta bæklinginn.“
Þá liggur þetta ljóst fyrir. Nokkrir nafnlausir en óánægðir framsóknarmenn ákváðu í fyrra að semja óhróðursbækling um Framsóknarflokkinn og svo leituðu þeir til Valdimars Jóhannessonar eftir upplýsingum um prentsmiðjur. Valdimar er greiðvikinn og kom þeim í samband við prentsmiðju. Framsóknarmennirnir vissu nefnilega ekki hvar prentsmiðjur eru starfræktar. Það var því ekki nema von að þeir hafi verið óánægðir.