Þriðjudagur 17. október 2000

291. tbl. 4. árg.

Fyrir nokkrum mánuðum komust handhafar íslensks umburðarlyndis í feitt. Þá gerðist það að fremur sérkennilegt félag ungra sjálfstæðismanna úti á landi setti fram þá skoðun, að þeir útlendingar sem vildu öðlast íslenskt ríkisfang yrðu að standast próf í íslensku áður en þeir fengju ríkisfangið. Þetta þótti Umburðarlyndum hin allra versta skoðun og höfðu þeir uppi stór orð um þá fordóma og rasisma sem þeim fannst auðheyrilega búa að baki. Tilfinningaþrungnar greinar voru birtar um málið og alla tíð síðan hafa sumir notað þetta atvik til að halda því fram að ungir sjálfstæðismenn séu allir tómir kúklúxklan-menn.

Svo gerðist það á dögunum að í ljós kom að þeir eru til sem vilja ganga miklu lengra en þeir sem ályktuðu um ríkisborgararéttinn. Þeir eru nefnilega til sem beinlínis vilja skylda þá sem ætla að setjast að á Íslandi til að sækja námskeið í íslensku. Með því væri væntanlega gengið talsvert lengra því ríkisborgararéttur er ekki veittur fyrr en eftir nokkurra ára búsetu, en engu að síður hefur ekki borið á fordæmingu hinna Umburðarlyndu. Enn hafa ekki heyrst upphrópanir um fordóma, fasisma, rasisma og nasisma. En þær upphrópanir hljóta að vera á leiðinni því þeir Umburðarlyndu eru nú sjálfum sér samkvæmir. Þess vegna munu þeir taka fast á nýjustu nasistunum. Og hverjir eru þeir? Jú, það eru nýbúar. Samkvæmt skoðanakönnun Gallup vilja 85 % nýbúa að þeir útlendingar sem vilja setjast að á Íslandi verði skyldaðir til að læra íslensku.

Vefþjóðviljinn leyfir sér að vera ósammála bæði þeim ungu sem ályktuðu um ríkisborgararéttinn og nýbúunum sem vilja skylda menn á námskeið. Vefþjóðviljinn er þeirrar skoðunar að ríkið eigi að láta búsetuþróun afskiptalausa, hvort sem hún felst í því að íslenskir landsbyggðarmenn flytjast suður eða íbúar erlendra stórborga flytjast í dreifbýlið á Íslandi.