Miðvikudagur 11. október 2000

285. tbl. 4. árg.

Eins og Vefþjóðviljinn hefur áður rætt, þá þykir fjölmiðlamönnum gjarnan sem fjölmiðlamenn gegni afar mikilvægu hlutverki í mannlífinu. Þeir gæti þess að „almenningur“ sé upplýstur um það sem máli skiptir svo hann geti myndað sér „upplýsta skoðun“. Fjölmiðlamenn gera auk þess margir mikið úr hlutleysi sínu og á einhverjum fjölmiðlum mun meira að segja gilda sú tilgerðarlega regla að þeir sem ráðnir eru til fréttamannsstarfa verða um leið að skrá sig úr þeim stjórnmálaflokki sem þeir kunna að hafa heyrt til. Sú hugmynd, að menn verði hlutlausir við það að fara af einhverjum skrám úti í bæ – eða verði hlutdrægir við að fara á slíkar skrár – verður þó ekki rædd hér. Það er annað atriði sem Vefþjóðviljinn ætlar að minnast á.

Fjölmiðlamenn geta haft mikil áhrif á þjóðmálaumræðuna, bæði með ákvörðun um það hvað þeir ræða og um það hvað þeir ræða ekki. Og þeir ákveða ekki einungis við hverja þeir tala. Fjölmiðlamenn ráða einnig miklu um það hvað kemst til skila af því sem viðmælandinn hefur að segja. Á dögunum birti fréttastofa Stöðvar 2 viðtal við einn starfsmann verðbréfafyrirtækisins Landsbréfa og var fjárlagafrumvarpið til umræðu. Í kynningu fréttastofunnar sagði að mennirnir sem fylgdust með púlsinum á íslenska fjármálamarkaðinum segðu að fjárlagafrumvarpið ógnaði gengi íslensku krónunnar. Birtist svo viðtal við starfsmann Landsbréfa sem sagði að ef ríkið hefði ætlað að greiða niður erlendar skuldir eingöngu þá væri gengi krónunnar auðvitað í mikilli hættu.

Þessa mynd fengu áhorfendur. Fjárlagafrumvarpið veldur semsagt ólgu og ógnar gengi gjaldmiðilsins. Þetta er líklega hið versta frumvarp. Nema það að daginn eftir þetta sendu Landsbréf frá sér athugasemdir þar sem annað var nú að heyra. Þar sagði að Landsbréf teldu fjárlagafrumvarpið í flestu jákvætt fyrir fjármálamarkaðinn og í því hafi verið staðfest aðhaldssöm ríkisfjármálastefna og markmið um aukinn þjóðhagslegan sparnað og áframhaldandi einkavæðingu. Segir í athugasemdum Landsbréfa að þetta séu allt atriði sem mælt hafi verið með á síðustu misserum þó áform um niðurgreiðslu erlendra skulda þarfnist nánari skýringa og hafi valdið óvissu.

Þetta fylgdi hins vegar ekki fréttinni um viðbrögð „mannanna á púlsinum“. Landsbréf segja frá því í athugasemdum sínum, að jákvæðar umsagnir um fjárlagafrumvarpið hafi einfaldlega verið klipptar út úr viðtalinu sem sýnt var á Stöð 2.