Ef marka má ýmsa álitsgjafa fjölmiðla og sjálfskipaða sérfræðinga í málefnum bandarískra stjórnmála fer ekki á milli mála að Al Gore, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi, er afar vel gerður og gefinn maður. Sömu „sérfræðingar“ álíta yfirleitt að nokkuð vanti upp á gáfnafar forsetaframbjóðandans George W. Bush. Fátt eða ekkert er nefnt til stuðnings þessum skoðunum, enda eru þær lítið annað en afleiðing þess áróðurs sem stuðningsmenn annars frambjóðandans halda fram.
Næst þegar því verður haldið fram að Gore hafi mikla andlega yfirburði yfir flesta aðra menn mætti hafa nokkrar ótrúlegar staðreyndir um staðreyndarugling Gores í huga. Ýmist er um að ræða ýkjusögur kappans af sjálfum sér, dæmisögur sem eiga að hljóma vel í baráttunni eða hrein og vísvitandi ósannindi. Hér að neðan eru nefnd nokkur atriði en ekki er um tæmandi upptalningu að ræða:
– Í kappræðum í síðustu viku sagðist Gore hafa farið til Texas með forstjóra Neyðarstjórnunarstofnunar alríkisins, James Lee Witt til að líta á tiltekinn skógareld sem lék þar lausum hala. Eftir kappræðurnar kom hins vegar í ljós – og það hefur Gore meira að segja orðið að viðurkenna – að hann hafði alls ekki farið í þessa skoðunarferð með Witt.
– Um svipað leyti hélt Gore því fram að ungur nemandi í Flórída hafi ekki fengið sæti og borð í skólanum vegna þess að fjöldinn í bekknum hans hafi verið orðinn svo mikill. Skólastjórinn leiðrétti þetta og sagði næga stóla og borð fyrir alla. Hann harmaði jafnframt að Gore skyldi ekki hafa haft fyrir því að kanna staðreyndir málsins áður en hann rauk með söguna í fjölmiðla.
– Gore segist hafa tekið „frá fyrsta degi“ þátt í að stýra stofnun sem sér um stjórnun varabirgða eldsneytis. Raunin er þó sú að hann tók sæti á þingi tveimur árum eftir að stofnunin var sett á fót.
– Þetta minnir líka á það þegar hann sagðist vera faðir Netsins og að Netið væri honum að þakka. Seinna varð hann að draga þá fullyrðingu til baka við heldur lítinn orðstír. Netið er því enn munaðarlaust.
– Á flokksþingi demókrata 1996 klökknaði Gore þegar hann greindi þingfulltrúum frá því að Nancy systir hans hefði sem unglingur byrjað að reykja og dáið svo úr lungnakrabba árið 1984. Sagðist Gore í ræðunni ætla að „hella sér af öllu hjarta út í baráttuna fyrir því að vernda börnin okkar fyrir hættunni af reykingum“. Þingfulltrúar klökknuðu með honum og Time og Newsweek héldu heldur ekki vatni. Skömmu síðar viðurkenndi Gore að hafa tekið við framlögum frá tóbaksfyrirtækjum í kosningasjóði sína öll undanfarin ár og að fjölskylda hans hafi haldið áfram að leigja land undir tóbaksframleiðslu árum saman eftir að systir hans lést.
– Þá gerði Gore talsvert úr hlut sínum í þátttöku sinni í stríðinu í Indókína. Hann var þar sem blaðamaður í fimm mánuði, minna en helming þess tíma sem menn voru að jafnaði, og kom aldrei nærri átökum.
– Loks má ekki gleyma því að Gore sagði verkalýðshópi frá því að móðir hans hafi sungið hann í svefn með einum af baráttusöngvum verkalýðsins. Sá söngur var saminn þegar Gore var 27 ára gamall! Hann hefur víst ekki verið tiltakanlega bráðþroska ungmenni.
Fyrir nokkrum árum þótti mikil skemmtun að henda gaman að Dan Quayle varaforseta Bandaríkjanna og þótti mörgum fréttaskýrendum hann hinn mesti afglapi fyrir að missa stundum út úr sér einhverja vitleysu eða stafa orð ranglega. Munurinn á honum og Gore var þó sá að hann var ekki staðinn að sömu ósannindunum og Gore. Það er þó líklega ekki skýringin á því hann fékk þann stimpil að vera illa gefinn á meðan Gore hefur fengið gagnstæðan stimpil. Skýringin er líklega sú að allir hinir „hlutlausu“ fréttaskýrendur styðja Gore en voru á móti Quayle. Þeim finnst yfirleitt minna mál þegar vinstri menn misstíga sig en þegar hægri menn gera það.