Enn eitt fjárlagafrumvarpið sem einkennist af auknum útgjöldum ríkisins var kynnt í gær. Nái frumvarpið fram að ganga verður útgjaldamet ríkissjóðs slegið og það met er ekki gamalt. Útgjöld ríkisins aukast umfram verðlags- og launaþróun og ríkið mun ekki gefa þumlung eftir af sínum hluta í landsframframleiðslunni. Ný lög um fæðingarorlof vega þungt í því efni. Landsmenn munu strita fyrir sköttunum – og engu öðru – frá nýársdegi og fram í júní á næsta ári eins og þeir hafa gert undanfarin ár. Í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu vegna fjárlagafrumvarpsins er ekki minnst á skattalækkanir. Enda hafa stjórnmálamenn úr öllum flokkum gert lýðum ljóst að hið opinbera hafi einkarétt á því að eyða meiru í þenslunni – það mun vera góðkynja eyðsla. Í kynningarefni fjármálaráðherra með frumvarpinu stendur þó „Stefnt að lækkun skatta fyrirtækja og einstaklinga.“
DV birti skoðanakönnun í gær og kom þar fram að 89,8 % þeirra sem blaðið náði til ætla ekki að kjósa Vinstrihreyfinguna-grænt framboð í næstu kosningum. Ef aðeins er litið til þeirra sem gáfu upp hvað þeir hyggjast kjósa, kemur fram að 80,6 % þeirra ætla ekki að kjósa Vinstrihreyfinguna-grænt framboð í næstu kosningum. DV leitaði álits Ögmundar Jónassonar á þessu og Ögmundur svaraði: „Þetta eru mjög gleðileg tíðindi. Þetta er vísbending um að okkar málflutningur er metinn að verðleikum.“
Vefþjóðviljanum er ánægja að því að taka undir þessi orð Ögmundar.