Mánudagur 2. október 2000

276. tbl. 4. árg.

Eins og menn vita hafa íslensk stjórnvöld sett aragrúa reglna til að hafa hemil á borgurunum. Þegar reglurnar eru settar fylgja þeim yfirleitt fögur orð um það hvernig þær muni stuðla að fegurra mannlífi og vernda borgarana, ýmist fyrir eigin klaufaskap eða þá illmennsku annarra. En þess er sjaldnar getið að reglurnar muni fyrirsjáanlega leggja kostnað og óþægindi á venjulegt fólk, auk þess sem þær skerði athafnafrelsi þess. Stundum heyrist sú skoðun að þetta sé séríslenskt vandamál, að annars staðar fái borgaranir meiri frið fyrir valdsmönnum með barnfóstrutilhneigingar.

En ofstjórn og reglugerðaflóð eru alþjóðlegt böl. Í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið, hafa stjórnvöld gengið afar langt í því að skipta sér af því hvað borgararnir mega gera og umfram allt, hvað þeir mega ekki gera. Margir Þjóðverjar taka opinberum fyrirskipunum vel og reyna sitt besta til að hlýða þeim en einnig eru til forhertir menn sem skirrast ekki við að ógna þjóðaröryggi með því að hafa þær að engu. Sem dæmi um síðarnefnda hópinn má nefna glæpakvendi eitt, frú Ilku Brückner. Frú Brückner er 53 ára gömul hárgreiðslukona sem var í síðustu viku dæmd til 18 daga fangelsisvistar fyrir þann glæp sinn að hafa hárgreiðslustofu sína opna utan þess tíma sólarhrings sem þýsk yfirvöld hafa markað sem leyfilegan afgreiðslutíma hárgreiðslustofa. Ekki mun frú Brückner hafa neytt nokkurn mann til að vinna með sér við hárgreiðsluna og ekki mun hún hafa þvingað nokkurn mann til viðskiptanna. Þá mun hún ekki hafa framið ódæði sitt í ágóðaskyni því við rannsókn málsins kom í ljós að Brückner hafði gefið tekjurnar af hárgreiðslunni til krabbameinssjúkra barna í næsta þorpi.

En þýsk stjórnvöld eru eins og önnur haldin þeirri meinloku að þau viti hvað þegnunum er fyrir bestu. Þess vegna telja þau sér bæði heimilt og skylt að setja borgurunum allskyns skorður. Ríkið man nefnilega að reglurnar sem takmarka afgreiðslutíma verslana og þjónustufyrirtækja voru kynntar sem framfaraspor og þess vegna þykir því sjálfsagt að halda þeim uppi með valdi. Rétt eins og stjórnvöld um allan heim reyna að þvinga borgarana til hvers kyns hegðunar sem embættismenn ímynda sér að sé til fyrirmyndar. Og slíkar reglur eru af sama meiði. Hvort sem þær eru um afgreiðslutíma verslana, verðmerkingar í gluggum, orðbragð í auglýsingum eða samráð kaupmanna eða neytanda, þá skerða þær athafnafrelsi borgaranna, valda þeim kostnaði og óþægindum og gera rekstur þyngri í vöfum en ella. Þær hafa allskyns slæm áhrif, misjafnlega sýnileg, og það bregst ekki að stjórnvöld og embættismenn þeirra leggja metnað sinn í að halda þeim uppi og tala máli þeirra.