Helgarsprokið 1. október 2000

275. tbl. 4. árg.

„Ríkið ætlar sér að eiga þessi réttindi og þessar náttúruauðlindir að eilífu og fyrir mér er þetta þjóðnýting. Ég er ekki að segja að um sé að ræða breytingar frá núverandi ástandi en það er verið að staðfesta í stjórnarskrá – rétt eins og stjórnarskrá Sovétríkjanna var – að þessar auðlindir séu eign ríkisins“, sagði Ragnar Árnason prófessor og einn nefndarmanna í hinni svonefndu auðlindanefnd í DV í gær.

Á vordögum samþykkti Alþingi mál nr. 623 frumvarp um foreldra- og fæðingarorlof sem er mesta varanlega aukning á útgjöldum hins opinbera á síðari tímum. Ekki er útlit fyrir að um frekari einkavæðingu fjármála- eða fjarskiptafyrirtækja verði að ræða á þessu ári. Ef tillögur auðlindanefndar ná fram að ganga fer fram stjórnarskrárbundin þjóðnýting á auðlindum lands og sjávar og skattar verða hækkaðir á almenning með nýjum gjöldum á sjávarafurðir, orkunotkun, símtöl og hljóðvarp- og sjónvarp.

Vef-Þjóðviljinn hefur áður vitnað í hið sígilda verk Ritgerð um ríkisvald eftir John Locke m.a. 6. febrúar síðastliðinn en þar sagði:  „Guð sem hefur gefið mönnum veröldina til sameignar, hefur og gefið þeim skynsemi til að nota sér hana svo þeir fái lifað sem best og haganlegast. Jörðin og allt á Jörðinni er mönnum gefið til að þeir fái lifað sem best og haganlegast. Jörðin og allt á Jörðinni er mönnum gefið til að þeir geti haft lífsviðurværi og lífsþægindi. Og þótt öll þau aldin sem Jörðin framleiðir og öll þau dýr sem hún elur tilheyri mannkyni sameiginlega þar sem þau spretta fram úr skauti náttúrunnar, og þótt enginn hafi frá öndverðu einkarétt yfir neinu þeirra meðan þau eru ósnortin í náttúrunni, þá hlýtur að vera einhver leið til að ná eignarhaldi á þeim, því ella geta þau ekki orðið nokkrum einstökum manni að gagni.“ Og áfram heldur Locke: „Þótt Jörðin og allar óærði skepnur séu sameign allra manna þá hefur hver maður þó eignarrétt yfir sjálfum sér, og yfir honum getur enginn annar haft neinn rétt. Við getum því sagt að hann sé réttmætur eigandi vinnu sinnar og handverks. Hvaðeina sem hann hefur fært úr skauti náttúrunnar hefur hann blandað með vinnu sinni og bætt við það nokkru sem hann á með réttu og þar með gert það að eign sinni. Með því að hafa fært eitthvað úr því ástandi sem náttúran skildi við það í, hefur hann með vinnu sinni bætt við það nokkru sem afnemur sameign annarra á því. Því þar sem vinnan er tvímælalaust eign verkamannsins, þá getur enginn annar en hann haft rétt til þeirra hluta sem vinnan hefur verið lögð í, að minnsta kosti ekki þar sem nóg er eftir í sameign af jafn góðum hlutum fyrir aðra.“ Og enn segir hann: „Þannig verður grasið sem hross mitt bítur, torfið sem húskarl minn sker og málmurinn sem ég gref úr jörðu, hvar sem ég hef rétt til þess með öðrum, mín eign án þess að nokkur hafi boðið mér að taka eða gefið mér til þess samþykki sitt. Vinnan, sem var mín og færði hlutina úr þeirri sameign sem þeir voru í, hefur fest mér þá til eignar.“ Og að lokum er rétt að vitna í þessi orð Locke: „En nú eru mikilvægustu eignir manna ekki ávextir jarðarinnar og þau dýr sem hún elur heldur jörðin sjálf sem innifelur og ber með sér allt hitt. Ég tel ljóst að eignarréttur á jörð fæst með sama hætti og fyrr var nefndur: maður hefur rétt á að eigna sér svo mikið land sem hann plægir, plantar í, bætir og ræktar, og getur notað sér afraksturinn af. Með vinnu sinni girðir hann það af, ef svo má segja, frá því sem eftir liggur í sameign.“

Hér að ofan er Locke að vísu ekki að tala um fiskveiðar, en augljóst er að heimfæra má hugmyndir hans um myndun eignarréttar upp á þær. Myndun eignarréttarins er nokkuð sem farið hefur fyrir brjóstið á ýmsum sem virðast álíta að nú á tímum geti ekki myndast eignarréttur nema með kaupum og sölu. Nú verði ríkið að slá eign sinni á alla hluti sem eru þess eðlis að skilgreina þarf orðið eignarrétt á þeim þó ekki hafi þurft að skilgreina réttinn áður. Þegar takmarka þurfti veiðar með því að taka upp kvótakerfi var augljós sanngirni í því að þeir sem höfðu stundað veiðarnar gætu gert það áfram. Þess vegna var kvóta úthlutað eftir veiðireynslu til þeirra sem stundað höfðu útgerð.

Nauðsynlegt er að átta sig á því að sá eignarréttur sem þarna er um að ræða er ekki eignarréttur á fiski í sjó eins og andstæðingar stjórnkerfis fiskveiða halda stundum fram til að slá ryki í augu fólks. Eignarrétturinn sem um ræðir er rétturinn til að veiða tiltekið hlutfall leyfilegs heildarafla í tiltekinni fiskitegund. Þetta er sem sagt réttur til að veiða fisk en ekki eign á fiski í sjó. Og eins og áður sagði fengu þeir réttinn sem verið höfðu við veiðar, enda hefði annars orðið að ýta þeim út úr greininni með því að svipta þá þessum rétti og hleypa einhverjum öðrum að í staðinn. Hefðu þeir viljað stunda veiðar áfram hefðu þeir orðið að kaupa sig inn í það sem þeir höfðu þegar áunnið sér rétt til. Hefði vilji þjóðnýtingarsinna orðið ofan á hefðu þessir menn orðið að kaupa þennan rétt sinn af ríkinu sem blásið hefði út við þessa ranglátu skattlagningu.

Til að rugla umræðurnar enn frekar grípa andstæðingar núverandi kerfis iðulega til þess bragðs að rangtúlka lögin um stjórn fiskveiða. Í fyrstu grein laganna segir: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“ Sumir þessara manna láta eins og þessi orð þýði að ekki sé hægt að notast við núverandi kerfi. Þó er það með þessum sömu lögum sem kerfinu er komið á. Það er með öðrum orðum kveðið á um kvótakerfið í sömu lögum og kveða á um að nytjastofnarnir séu sameign þjóðarinnar. Því er útilokað að þeir sem samþykktu lögin hafi skilið þau eins og áróðursmenn gegn kerfinu þykjast gera nú. Það þarf heldur ekki annað en lesa athugasemdir við þessa fyrstu grein frumvarpsins til að sjá að ekki var átt við sameign í hefðbundnum skilningi orðsins. Þarna er t.d. ekki um sameign að ræða eins og ef tveir menn eiga saman íbúð eða bíl, en í athugasemdinni segir m.a.: „… felst í þessu sú sjálfsagða stefnumörkun að markmiðið með stjórn fiskveiða er að nýta fiskstofnana til hagsbóta fyrir þjóðarheildina.“ Augljóst er að Alþingi var einmitt þeirrar skoðunar að lögin, og þar með kvótaúthlutunin, uppfylltu þetta atriði og á þeim áratug sem liðinn er frá setningu laganna hefur komið í ljós að þessi skoðun átti við rök að styðjast.

Af framansögðu má sjá að stjórnkerfi fiskveiða er réttlátt, ólíkt því sem pólitískir lýðskrumarar og aðrir þeir sem kjósa að spila á öfundina halda fram. Fleiri lagaleg atriði en hér eru nefnd skipta máli í umræðu um stjórn fiskveiða, sérstaklega vegna hins svokallaða Vatneyrardóms. Um þau var fjallað í helgarsproki sextánda janúar síðastliðinn og má lesa það hér.