Undanfarið hefur nokkuð verið rætt um svokallað „Barnahús“ og spratt umræðan af því að Hæstiréttur neitaði að skipa Héraðsdómi Reykjavíkur að láta tiltekna yfirheyrslu fara fram þar. Eftir að Hæstiréttur kvað upp þann úrskurð sinn hafa ýmsir brugðist hinir verstu við, sagt úrskurðinn til marks um að dómstólar fari illa með börn og heimtað að dómstólarnir verði „skikkaðir til að láta yfirheyrslur fara fram í Barnahúsi“.
Það má finna sér margt þægilegra að gera en að deila við áköfustu stuðningsmenn „Barnahúss“. Væntanlega eru allir sæmilega heilbrigðir menn áfram um það að sem best verði gert við þau börn sem verða fyrir alvarlegum ofbeldisglæpum og fáir glæpir vekja meiri óhug en ofbeldi fullorðinna gagnvart börnum. Og þess vegna er auðvelt að tala máli „Barnahúss“ og að sama skapi óþægilegt fyrir menn að halda fram öðrum sjónarmiðum. Þeir sem vilja allar yfirheyrslur inn í „Barnahús“ líta út sem mannlegir velvildarmenn misþyrmdra ungbarna en þeir, sem segja að ástandið sé ekki eins slæmt og menn vilja vera að láta, líta út sem kaldlyndir bókstafstrúarmenn sem hafa meiri samúð með ódæðismönnum en fórnarlömbum þeirra.
Og í umræðu undanfarinna daga, hefur mátt skilja menn svo að illmenni í dómarastétt neiti með öllu að yfirheyra börn í „Barnahúsi“. Sem sé mjög ómannúðlegt þar sem verið sé að yfirheyra ungbörn sem „fagfólki“ sé best treystandi fyrir. Að yfirheyrslurnar verði að vera í hlýlegu „Barnahúsi“ með leikföngum og sálfræðingum svo ungbörnunum líði sem best. Raunveruleikinn er sem betur fer annar. Staðreyndin er sú, að undanfarin misseri hefur meirihluti yfirheyrslna yfir börnum einmitt farið fram í „Barnahúsi“ en ekki í húsakynnum dómstólanna. Og ef litið er á aldur barnanna þá kemur í ljós að fjölmennasti aldurshópurinn eru börn á aldrinum 16-17 ára. Næst fjölmennasti hópurinn, það eru börn á aldrinum 14-15 ára.
Þannig er erfitt að segja að dómstólar landsins vilji ekki reyna að koma til móts við þau börn sem kæra fullorðna fyrir ofbeldi. Og hér má skjóta inn í að dómstólar hafa skyldur við fleiri aðila. Aðilar mála, eins og þeirra sem menn hafa í huga í þessu sambandi, eru fleiri en barnið sjálft. Þar er einnig annar maður, það er hinn sakborni einstaklingur, sem vel að merkja á að njóta þeirra mannréttinda að teljast saklaus þar til hið gagnstæða hefur verið sannað. Sá sem borinn er sökum um glæp á rétt á því að tala máli sínu fyrir hlutlausum dómstóli og í því felst að dómstóllinn má ekki ganga út frá sekt hans sem gefnum hlut. Mikilvægt er að fyllsta hlutleysis sé gætt við alla rannsókn og meðferð afbrotamála og á það ekki síst við um þau alvarlegu mál sem snerta ofbeldi gagnvart börnum. Mál sem þessi snúast sjaldnast eingöngu um að finna hinn seka, iðulega þarf einnig að leiða í ljós hvort brot hefur í raun verið framið. Í því sambandi er ástæða til að gera athugasemd við þann sið margra að tala einfaldlega um barnið, kærandann, sem „brotaþola“ og láta sem allt snúist um „nærgætni við brotaþola“. Og þó menn hafi þetta í huga eru þeir ekki að hvetja til nokkurrar linkindar við það fólk sem fremur þá alvarlegu glæpi að níðast á börnum.