Þingmaðurinn Einar K. Guðfinnsson lætur fá tækifæri ónýtt til að koma þeirri skoðun sinni á framfæri að jafn kosningaréttur landsmanna sé smáatriði. Þessi réttur er sér í lagi smár í samanburði við helgan rétt Einars sjálfs til að vera í góðu og milliliðalausu sambandi við kjósendur, eins og lesa má út úr grein hans í Morgunblaðinu í gær. Í grein sinni segir þingmaðurinn að um of hafi verið horft til „spurningarinnar um vægi atkvæða þegar rætt eru um breytingar á kjördæmaskipan eða á kosningalöggjöfinni“.
Undir eitt má taka með þingmanninum og það er að staða þrýstihópa er stundum ískyggilega sterk. Aðferð hans til að ráða bót á þessu, þ.e. að hafa beinna samband milli kjósenda og þingmanna, er hins vegar alröng. Afstaða þingmanna Vestfjarða, þ.m.t. Einars sjálfs, til ýmissa mála er til marks um það. Má þar sem dæmi nefna að afstaða þingmanna Vestfjarða til gangagerðar á Vestfjörðum hefur mótast af afar þröngum sérhagsmunum kjósenda þeirra. Nýlegt dæmi af Suðurlandi má einnig nefna, er þar hafa tveir þingmenn, Árni Johnsen og Lúðvík Bergvinsson, lýst þeirri skoðun sinni að óheppilegt sé að rekstur ferjunnar Herjólfs verði ekki í höndum Eyjamanna. Gerist þetta í framhaldi af því að fyrirtæki í eigu Eyjamanna gerði mun óhagstæðara tilboð í rekstur ferjunnar en fyrirtæki sem ekki er frá Eyjum.
Þetta eru bara tvö lítil dæmi um kjördæmapot sem komið er til af því að þingmenn eru í mikilli sérhagsmunabaráttu fyrir kjósendur sína. Ef atkvæði í öllum kjördæmum vega álíka þungt kemur þetta kjördæmapot þó minna að sök, því allir þingmenn og allir kjósendur munu standa jafnt að vígi.
Grein Einars K. Guðfinnssonar var hins vegar ekki aðeins rituð til að lýsa harmi þingmannsins yfir því að atkvæðavægi landsmanna væri smám saman að jafnast, heldur var tilgangurinn einnig að rökstyðja það að honum bæri að fá til sín sérstakan aðstoðarmann, því við stækkun kjördæmanna kæmist hann ekki lengur í húsvitjun hjá hverjum kjósanda! Þingmaðurinn telur sum sé að hann geti ekki rækt skyldur sínar við kjósendur nema þekkja þá alla persónulega og vita nákvæmlega hvar skórinn kreppir hjá hverjum og einum. Hann vill með öðrum orðum halda við því ástandi að þingmenn séu að leysa sérstök vandamál einstakra byggða eða jafnvel einstakra manna, í stað þess að setja almennar reglur.
Og þingmaðurinn telur greinilega ekkert athugavert við það að þessu fylgi aukin ríkisútgjöld og stærra bákn, enda barátta hans undir slagorðunum „Báknið burt“ löngu gleymd hafi hún þá nokkurn tímann verið honum ofarlega í sinni.