Föstudagur 15. september 2000

259. tbl. 4. árg.

„Fær ekkert að vera í friði fyrir þessu fólki?“ spurði Helgi Pétursson borgarfulltrúi R-listans í DV í gær. Tilefni þessarar kvörtunar Helga er að D-listinn hefur gert fyrirspurn vegna þess að borgin eyddi nokkrum milljónum meira í skemmtun á menningarnótt en samþykkt hafði verið. Núverandi minnihluta þótti víst ótækt að peningum borgarbúa væri brennt í háloftunum án þess að hann fengi að samþykkja íkveikjuna fyrst. En viðbrögð Helga eru mjög úr takti við það sem gerst hefur frá því D-listinn var gerður að minnihlutaafli í borgarstjórn. Annað hvort er Helgi óvenju viðkvæmur maður eða hann er að hæðast að D-listanum, því engin leið er að segja að ekkert fái að vera í friði fyrir minnihlutanum í borgarstjórn. Staðreyndin er þvert á móti sú að minnihlutinn hreyfir lítt andmælum við útgjöldum meirihlutans en situr þægur og prúður fyrir utan einstaka athugasemdir við minniháttar mál. R-listinn gæti varla fengið hagstæðari andstæðing.

Sem dæmi um hversu þægilegur minnihlutinn er búinn að vera má hafa að hann mótmælir ekki einu sinni hugmyndum um byggingu hins opinbera á risastóru tónlistarhúsi og ráðstefnuhöll við höfnina, sem þó er ljóst að mun kosta marga milljarða króna.
Það þarf vart að taka fram að núverandi minnihluti mótmælir ekki yfirbyggðum fótboltavelli, fjölnota íþróttahúsi eða yfirbyggðri sundlaug. Allt fer þetta mótmælalaust í gegn hjá þessum harðsnúna minnihluta. Minnihlutinn á jafnvel svo mikla niðurskurðarnagla að á dögunum mótmælti fulltrúi hans kröftuglega þegar forsætisráðherra leyfði sér að benda á að sveitarfélögin eyddu um efni fram.
Og minnihlutinn er svo óvæginn að hann gerði enga athugasemd þegar Hrannar B. Arnarsson settist í borgarstjórn þó borgarfulltrúinn hefði langt því frá gert hreint fyrir sínum dyrum vegna þeirra skattamála sem minnihlutinn hafði áður gert athugasemdir við ásamt mörgum kjósendum R-listans.
Loks kemur harka minnihlutans fram í því að frá honum koma yfirleitt engar tillögur um niðurskurð, breytingar á rekstri eða samdrátt í umsvifum borgarinnar.

Minnihlutinn virðist sem sagt bara býsna sáttur við meirihlutann og endar sjálfsagt með því að sameinast honum fyrir kosningar til að ekki þurfi að koma til pólitískra átaka. Búið er að sameina vinstri- og miðjumenn sem fátt eiga sameiginlegt nema áhuga á að stjórna borginni og eyða annarra manna fé. Hví skyldu meintir hægri menn ekki stökkva á vagninn og taka þátt í að brenna peningum borgarbúa?