Fimmtudagur 14. september 2000

258. tbl. 4. árg.

Í hálffimm fréttum Búnaðarbankans í gær var birtur listi yfir verð á 95 oktan bensíni með og án skatta í nokkrum löndum Evrópu. Þá er hægur leikur að reikna út skattinn í þessum löndum. Eins og sjá má af töflunni er reiði bílstjóra í Bretlandi skiljanleg. Bretar borga mest þessara þjóða í skatta en Íslendingar eru í öðru sæti þrátt fyrir breytingar á skattlagningu bensíns fyrir skömmu. Án þeirra breytinga værum við þó í fyrsta sæti.

Verð með sköttum Verð án skatta Skattar
Ísland 95,3 36,9 58,4
Bretland 94,5 22,8 71,8
Finnland 85,2 29,0 56,2
Frakkland 82,0 25,8 56,2
Danmörk 81,5 27,6 53,9
Ítalía 80,5 29,4 51,1
Belgía 79,2 28,7 50,5
Þýskaland 76,3 25,0 51,3
Portúgal 64,4 34,1 30,3
Lúxemborg 61,3 27,8 33,5
Spánn 60,5 25,2 35,3

Í Viðskiptablaðinu í gær var Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður spurður hvort lækka eigi álögur á bensín. Steingrímur sagði m.a.: „Staðreyndin er sú að það væri út frá umhverfislegu og tekjujöfnunar sjónarmiði mjög freistandi að leita leiða til að greina á milli eins fjölskyldubíls hjá hverri fjölskyldu annars vegar og síðar bifreiðaeignar umfram það eins og lúxusbílareksturs hins vegar. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki einfalt mál en mér finnst þetta tilraunarinnar virði að fara yfir það hvort slíkt væri með einhverjum hætti mögulegt. Ég hef litla samúð með þeim tekjuháu heimilum sem eiga marga bíla. Ég kýs frekar að einblína á að koma kerfinu þannig fyrir að vísitölufjölskyldan beri sem mestan hlut frá borði.“ Vef-Þjóðviljinn bíður spenntur eftir nánari skilgreiningum á lúxusbílnum (t.d. hvort hann er með búnaði til að komast að Eyjabökkum) og hversu lágar tekjur menn þurfa að hafa til að eiga rétt á  því fá sér slíkan bíl. Hvað ef vísitöluhjónin skilja til að ná sér í hærri barnabætur og vaxtabætur, mega þau þá fá sér hvort sinn bílinn?