Össur Skarphéðinsson getur ekki nefnt dæmi um að Íslendingar hafi ekki fengið að koma að ákvörðunum Evrópusambandsins. Meginröksemd hans fyrir inngöngu Íslendinga er þó einmitt að aðeins með inngöngu fáum við að leggja orð í belg þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar af skriffinnum ESB. Og svo mikið er víst að þegar reglugerðir og tilskipanir ESB eru í smíðum virðast ýmsir fá að koma ýmsu að. Í faðirvorinu á ensku eru 45 orð. Boðorðin tíu hafa að geyma 297 orð. Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna er 302 orð. Enska útgáfan af leiðbeiningum Evrópusambandsins um innflutning á andaeggjum er 26911 orð.
Verð á hráolíu á heimsmarkaði hefur sveiflast hressilega að undanförnu en í ársbyrjun 1998 náði verðið sögulegu lágmarki. Frá þeim tíma hefur verðið ríflega þrefaldast og hefur ekki verið hærra í um áratug. Þetta hefur að sjálfsögðu veruleg áhrif á verð á olíuvörum til neytenda eins og menn hafa orðið áþreifanlega varir við að undanförnu. En verðið hefur áður sveiflast eins og sjá má á grafinu hér til hliðar sem sýnir verðið úr bensíndælu í Bandaríkjunum frá árinu 1918 til 1999 án skatta. Þrátt fyrir stór stökk upp á við, eins og í olíukreppunni á síðari hluta áttunda áratugarins, er ekki annað að sjá en til lengri tíma litið sé þróunin neytendum í hag þ.e lækkandi olíuverð. Víða hafa hækkandi skattar þó náð að eyða ávinningi neytenda af þessari þróun. Skattar á eldsneyti hafa aldrei verið hærri en einmitt nú á Vesturlöndum og þegar verðsveiflur eru miklar taka neytendur eftir því hve stór hluti verðsins er skattar og andmæla. Íslenska ríkið breytti sinni skattlagningu í vor og tók upp fast gjald að hluta í stað hlutfallsskatts. Þetta er hagstætt neytendum á meðan verð á heimsmarkaði helst hátt en ef verðið lækkar aftur verður skatturinn hér hærri en ella. Þrátt fyrir þessa „lækkun“ hefur íslenska ríkið aldrei tekið fleiri krónur í skatt af hverjum bensínlítra en nú.
Þessi þróun til lækkunar á verði olíu þegar til lengri tíma er litið kemur illa saman við sífelldar fullyrðingar um að olían sé að klárast en þær heyrast einkum frá umhverfisverndarsinnum og öðrum heimsendaspámönnum. Alla öldina hafa birst spádómar um að olían dugi aðeins í nokkur ár eða áratugi en enginn þeirra ræst fremur en aðrar hrakspár umhverfisverndarsinna.