Segja má að Indriði G. Þorsteinsson hafi verið einn þekktasti rithöfundur Íslands á síðari hluta þessarar aldar. Af verkum hans má nefna sögur eins og 79 af stöðinni og Land og syni sem vöktu mikla athygli og umtal og urðu efni í kvikmyndir. Indriði var auk þess þekktur fyrir smásögur sínar, hann orti ljóð og samdi leikrit, en skipti sér einnig mikið af þjóðmálum og ástandi íslenskra menningarmála. Indriði var um marga ára skeið ritstjóri Tímans og áhrifamaður í Framsóknarflokknum og hafði allt til loka ákveðnar skoðanir á þróun íslenskra stjórnmála.
Þó að Indriði hafi fylgt Framsóknarflokknum að málum hikaði hann ekki við að rita í blöð sem aðrir stjórnmálaflokkar stóðu að. Taldi hann ætíð mjög áríðandi að vara við framgangi vinstri manna í stjórnmálum og menningarlífi og taldi borgaralega þenkjandi fólk ótrúlega andvaralaust gagnvart honum. Árið 1984 ritaði hann til dæmis grein í Stefni, tímarit ungra sjálfstæðismanna, „Erlend áhrif á Íslandi“, og sagði þar meðal annars: „Almenningur er fljótur að gleyma því sem liðið er, og seinni tíma svardagar meðlima núverandi Alþýðubandalags um að þeir séu íslenskastir allra manna virðast ganga í eyru sakleysingja, einkum þegar slíkir svardagar blandast allt að því trúarlegum afskiptum af lítilmagnanum, þegar þessir herrar eru ekki í ríkisstjórn. Síðan þeir börðust með oddi og egg gegn Vesturlöndum í byrjun síðasta stríðs hafa þeir orðið að éta ofan í sig ræðu Krústsjoffs um Stalín, uppreisnina í Ungverjalandi, innrásina í Tékkóslóvakíu og stríðið gegn afgönsku þjóðinni. … Ekkert af þessari sögu vinstri manna og kommúnista annars staðar frá er nóg til að draga úr því undarlega mikla fylgi, sem þetta útibú hroðans hefur á Íslandi. Alþýðubandalagið hefur lagt áherslu á að komast til áhrifa meðal kennara og í fjölmiðlum m.a. vegna þess að þeir vita að börn eru viðkvæm fyrir áróðri og fjölmiðlar skapa oft á tíðum einskonar heimsmynd handa lesendum og hlustendum, og þarf hún hvergi nærri veruleikanum að koma.“
Indriði talaði heldur enga tæpitungu þegar hann skrifaði í tímaritið Efst á baugi áratug síðar. Í greininni „Feður lyganna“ sagði hann meðal annars: „Þegar kommúnisminn hér á landi tapaði málgagni sínu, unnu þeir óðar tvö málgögn til fylgis við sig, Morgunblaðið og Dagblaðið-Vísi, á þeirri forsendu að þau eru öllum frjáls. Auk þess munaði engu að þeir næðu undir sig Tímanum, blaði framsóknarmanna, en Framsóknarflokkurinn hefur um skeið verið eins og þær konur í útlöndum, sem standa á götuhornum og brosa við vegfarendum og bjóðast til að fara með þeim í rúmið. Framsókn hefur einkum fundist að gamlir kommúnistar væru fýsilegir bólfélagar. … Því miður búa íslenskir borgaraflokkar enn við tímafrekan og harðan aga kommúnista. Að vísu má ekki nefna þá kommúnista, því þá ætla þeir vitlausir að verða. En þeir sjá til þess, að hvarvetna um Norðurlönd, einnig á Íslandi, sé haldið áfram að fjalla um hryðjuverk nasista og fasista, bræðraöfl þeirra, á meðan hvergi er minnst á hryðjuverk aldarinnar; hina langvarandi nauðgun rússnesku þjóðarinnar. Íslenskir kommúnistar tala nú eins og þeir eigi ekkert skylt við það mál, þótt stefnumál þeirra í áratugi hafi byggt á sömu hégiljum og þeim, sem feður lyganna höfðu að leiðarljósi og urðu margfalt fleiri þegnum Sovétríkjanna að bana en Hitler kom í verk að láta drepa á valdatíma sínum, ef stríð er undanskilið. Það er von að allir náðarfaðmar Íslands standi nú opnir þessu fólki. Vilji menn álíta að þessir menn séu orðnir með öllu meinlausir, þá má benda á, að völd þeirra eru enn mikil á tveimur mikilvægum póstum. Þessir póstar eru kennslumálin í landinu og menningarmálin. Svo er náttúrlega ástæðulaust að gleyma launþegahreyfingunni, þar sem þeir eru enn víðast hvar í forystu. En verkföll eru ekki lengur gerð samkvæmt pöntun eins og áður var. Aftur á móti eru kennslumálin í bágu ástandi. Ólæsi í skólum, landafræðikennsla í bútum og Íslandssagan í leit að verkalýðshreyfingu á söguöld, eru allt vitnisburðir um aðrar tilhneigingar en menntun. Menningarmálin eru síðan kapítuli út af fyrir sig, og verður að álíta að Sjálfstæðisflokkurinn hafi náð þar sérstöku harmónísku samneyti við kommúnista, að minnsta kosti þangað til annað kemur í ljós.“
Síðasta bók Indriða, Söngur lýðveldis, kom út árið 1997 en þar rifjaði Indriði upp kynni sín af mönnum eins og Jóni Helgasyni, Halldóri Laxness og Hriflu-Jónasi auk þess sem hann fjallaði um ýmis menningarmál. Og hann vék aðeins að stjórnmálum: „Nú telja kommúnistar að aftur sé farið að vora hjá þeim. Nú heita þeir vinstra aflið hér á landi og væntanlega eitthvað ámóta annars staðar. Ljóst er af málflutningi þeirra, að þeir telja sig vera handhafa öreigastefnu. Það vill hins vegar svo til að vinstra afl fyrirfinnst í öllum pólitískum hreyfingum og hefur enn ekki fundist sá aðili, sem einkarétt hefur á hugtakinu. Öll Norðurlönd hafa kosið yfir sig slík firn af velferð, að hér heyrist kvartað yfir því að ekki hafist undan að borga fyrir hana. Nefndir hafa verið biðlistar að sjúkrahúsum þó ekki hafi frést af faröldrum. Staðreynd er að við vorum ekki svona altekin hér áður. Ekki er vitað til að kommúnistar hafi verið beðnir forsjár í velferðarríkjum Vesturheims. Nú vilja þeir hins vegar ólmir taka Alþýðuflokkinn í gjörgæslu hvort sem hann vill eða ekki og nefna það sameiningu.“
Indriði G. Þorsteinsson fæddist á Gilhaga í Lýtingsstaðahreppi árið 1926. Rithöfundaferill hans stóð í tæp fimmtíu ár, frá því hann sendi frá sér Sæluviku árið 1951 og þar til hans síðasta blaðagrein birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 2. september síðastliðinn. Daginn eftir var hann allur.