Ríkisstyrkir til menningarstarfsemi eru yfirleitt réttlættir með því að án þeirra verði fólk af mikilvægri listsköpun. Sagt er að hinn blindi markaður geti ekki veitt fólki þá menningu sem nauðsynleg sé. Lágmenningin ein muni ráða ríkjum án aðgerða hins opinbera. Þessu hefur auðvitað oft verið mótmælt og bent á dæmi um merkileg verk sem gerð hafa verið án atbeina hins opinbera. Eins hefur verið bent á að ríki og sveitarfélög geti þvælst fyrir og verið til óþurftar á þessu sviði sem öðrum.
Þjóðleikhúsið virðist á dögunum hafa ákveðið að renna stoðum undir þessa skoðun með því að búa til nýtt dæmi. Leikfélag Íslands, sem er í eigu einkaaðila og að mestu rekið án stuðnings hins opinbera, hugðist í vetur bjóða landsmönnum upp á að sjá leikritið Oliver Twist. Þegar Þjóðleikhúsið frétti af þessu rauk það til og varð sér úti um réttinn að leikritinu næstu tvö árin, en hyggst ekki nýta hann næsta árið. Þetta framlag Þjóðleikhússins til menningarsköpunar hér á landi mun því í besta falli hafa þær afleiðingar að fresta sýningu verksins um eitt ár.
Fyrir um tveimur áratugum þótti flestum mönnum bábilja að halda því fram að bankar ættu ekki að vera í eigu ríkisins, en nú er svo komið að leitun er að fólki sem er ekki þeirrar skoðunar að ríkið eigi að selja það sem enn er óselt af hlut ríkisins í bankakerfinu. Hversu langur tími skyldi líða þar til þátttaka ríkis og sveitarfélaga í menningarstarfsemi mun almennt þykja sá skaðvaldur sem hún í raun er?
Í þættinum Deiglunni í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi var rætt við Guðna Ágústsson landbúnaðarráðherra og Össur Skarphéðinsson formann Samfylkingarinnar. Eins og venja er malaði Össur linnulítið en hafði svo sem ekki eftir því frá mörgu að segja. Eitt af því sem hann þurfti að mala um var Evrópusambandið og sá mikli vandi sem hann telur að fylgi því að Ísland er ekki aðili. Aðspurður tiltók hann sérstaklega ákvarðanatöku sambandsins og að Ísland kæmist ekki nógu vel að henni. Þá gerðist sá óvenjulegi atburður að stjórnandi í umræðuþætti vildi að Össur stæði við fullyrðingar sínar með því að nefna svo sem eins og eitt dæmi. Það var Össuri um megn og varð hann að lokum að viðurkenna að hann þekkti ekkert dæmi þess að Íslendingar hefðu ekki fengið að koma að ákvarðanatöku Evrópusambandsins.
En þó Össur hafi þarna mikið malað má segja að Guðni hafi malað Össur, því hann stóð sig mun betur og átti Össur oft á tíðum fá svör við sjónarmiðum Guðna, sem þó hefur ekki alltaf verið talinn eiga mikilvæg innlegg í slíkar umræður. Össur hefur ekki enn lært að hugsa áður en hann talar en hann kann til fulls listina að tala án þess að hugsa.