Tveir fótboltaleikir standa fyrir dyrum á næstu vikum. Nokkrir fullorðnir Íslendingar ætla að fara í boltaleik, fyrst við nokkra Dani og svo nokkra Norður-Íra. Ákveðið hefur verið að leyfa fólki að fylgjast með þessum markverðu atburðum og verður selt inn á völlinn eins og tíðkast hefur. Að þessu sinni hefur seljandi aðgöngumiðanna, Knattspyrnusamband Íslands, ákveðið að selja eingöngu miða sem gilda á hvoratveggju leikina og eru áhugamenn um fullorðinsíþróttir flestir spenntir að tryggja sér miða.
En ekki allir. Neytendasamtökin eru brjáluð og Samkeppnisstofnun er mjög hugsi yfir þessu og er alls ekki viss um að þessi söluaðferð standist lög. Á Neytendasamtökunum er það að skilja að lög og reglur séu þverbrotin og krefjast þau að „samkeppnisyfirvöld“ taki í taumana. Sú krafa virðist byggð á þeirri forsendu að einhvers staðar sitji maður sem eigi sérstaka heimtingu á því að geta keypt sig inn á einn tiltekinn fótboltaleik en ekki annan. Eða þá, að Neytendasamtökin telji að Knattspyrnusambandið fari um með ofbeldi og neyði menn til að kaupa þessa fölu aðgöngumiða. Ef hvorug þessara forsendna er fyrir hendi, þá verður ekki séð með góðu móti að Knattspyrnusambandið hafi brotið nokkurs manns rétt.
En reyndar væri það svo fráleit niðurstaða að sá grunur læðist að Vefþjóðviljanum að hún kunni að vera í samræmi við samkeppnisrétt og neytendarétt sem undanfarin ár hafa verið settir til höfuðs frjálsum viðskiptum á Íslandi og mörgum öðrum löndum. Þar kennir nefnilega margra ankannalegra grasa. Það er til dæmis búið að setja sérstakar reglur og fyrirmæli um verðmerkingu vara í búðargluggum. Allt í einu er Íslendingum bannað að reka verslanir ef þeir eru ekki með áberandi verðmerkingu sérhverrar vöru sem stillt er upp í búðargluggum. Neytendasamtökin hafa mjög þrýst á um þessa reglu og virðast algerlega lokuð fyrir þeirri staðreynd að enginn mun neyddur til að kaupa nokkra þá vöru sem stillt er upp í gluggunum. Þó það sé væntanlega þægilegt fyrir einn mann, hugsanlegan kaupanda, að verðmerking sé skýr og áberandi, þá heldur Vefþjóðviljinn því fram að það nægi ekki til að leggja skyldu á annan mann, kaupmanninn, að setja fram meiri merkingu en hann kýs.
Einnig eru til reglur um merkingar á umbúðum matvæla og er þar þess krafist að meðal annars sé greint frá framleiðsludegi og geymsluþoli. Þó slíkar upplýsingar séu kaupandanum til þæginda og öryggis er ekki endilega þar með sagt að það nægi til að leggja merkingarskyldu á framleiðandann. Enginn er neyddur til að kaupa þá vöru sem hann treystir ekki og er neytendum í lófa lagið að sniðganga ómerktar vörur. En það er eins og sumir telji íslenska neytendur vera alger flón. Í raun mesta furða að þeir treysti þessum neytendum til að lesa merkingarnar á umbúðunum.
Og hvað er að segja um herferð Neytendasamtakanna gegn svokölluðum „Fríkortum“ um árið. Þar virtist engu skipta að enginn er neyddur til að nota sér þessi kort eða yfirleitt skipta nokkuð við fyrirtækin sem gáfu það út.
Það virðist reyndar oft sem forystumenn Neytendasamtakanna telji aðra neytendur hálfgerð fífl. Að minnsta kosti verður vart annað ráðið úr látlausum kröfum þeirra um barnfóstruhlutverk ríkisins, hlutverk sem hratt og örugglega vinnur að því að engum finnst hann þurfa að taka ábyrgð á eigin gjörðum.