Í leiðara Viðskiptablaðsins í vikunni var fjallað um úthlutun rekstrarleyfa fyrir svonefnda þriðju kynslóð farsíma. Víða erlendis hefur hið opinbera náð sér í stórar fúlgur fjár með því að bjóða rásir til sölu. Í leiðaranum segir: „Ein helsta röksemdin fyrir því að bjóða upp rekstararleyfi fyrir þriðju kynslóð farsíma er að hér sé um takmarkaða auðlind að ræða. Á það hefur hins vegar verið bent að sú röksemd eigi ekki fyllilega við hér á landi þar sem allt bendir til þess að nægt framboð sé af tíðnisviðum til að flest ef ekki öll þau íslensku símafyrirtæki sem hug hafa á að reka farsímakerfi að þriðju kynslóð geti fengið úthlutað tíðni og boðið sína þjónustu án þess að skerða notkunarmöguleika annarra.“ Á það er jafnframt bent í leiðaranum að á endanum verði það neytendur sem greiði þau gjöld sem lögð kunna að verða á símafyrirtæki.
Mannvinurinn Li Peng sem af hjartagæsku sinni þekktist heimboð íslenskra stjórnvalda heldur ótrauður áfram hreingerningum sínum á meginlandi Kína. Andófsmenn og aðrir óvinir stefnu kínverska kommúnistaflokksins fá í dag, ekki síður en á Torgi hins himneska friðar fyrir rúmum áratug, að finna fyrir þeirri hlýju sem geislar af yfirvöldum. Eitt dæmi um slíkt er nýleg handtaka 130 félaga í evangelískum kristilegum söfnuði sem báðust full mikið fyrir og voru því hættulegir ríkinu. Þetta fólk hvarf sömu leið og ýmsir aðrir sem ekki kunna sig og halda að það sé þeirra einkamál hvaða trú þeir iðka. Þetta fólk skildi ekki að því bar að vera þátttakendur í kirkju sem nýtur velþóknunar Li Peng. Kirkju sem mun eiga að vera kaþólsk en lýtur þó ekki páfa heldur kínverskum kommúnistum, hvernig sem það gengur nú upp. En auðvitað gengur það upp því Li Peng og félagar segja að það gangi upp og ef fólk er óánægt fær það að kynnast gestrisni Li Peng. Og á meðan nýtur sami Li gestrisni íslenskra skattgreiðenda. En þó ekki sams konar gestrisni og kristnir menn á meginlandi Kína, því miður. Það væri nú svo sem ekki úr vegi að rýma fyrir hann eitt herbergi á Skólavörðustígnum svo honum finnist ekki að eitthvað vanti upp á móttökurnar.