Það er kunnara en frá þurfi að segja að menn telja sig oft geta hafið sig upp úr eigin vesældómi með því að veitast að minnihlutahópum. Hommar, innflytjendur, litaðir, trúaðir og fleiri hópar fá það óþvegið hjá þessum aðilum. Þessi málflutningur á sér lítinn hljómgrunn hér á landi og flestir leiða hann hjá sér sem hvert annað rugl. Þó ekki allir. Í Samfylkingunni (og áður Alþýðuflokknum) virðist alltaf nægt framboð af fólki sem telur sig geta skorað nokkur stig í umræðunni með því að efna til kappræðna við fordómaliðið. Hvað eftir annað taka ungir kratar upp á því að ræða opinberlega og af fúlustu alvöru við afhommunarliðið, andstæðinga innflytjenda og kynþáttahatara. Eini sýnilegi tilgangurinn með þessu virðist vera sá að undirstrika eigið umburðarlyndi, víðsýni og annað ágæti.
Auðvitað fæst engin niðurstaða úr umræðum við menn sem vilja „halda landinu hreinu“ eða „afhomma“ nágranna sína. Jafnvel víðsýnir ungkratar hafa ekki snúið einum einasta kóna af þeirri gerð. Eina hugsanlega afleiðingin af þessari auglýsingamennsku ungkratanna er að hleypidómarnir fá ókeypis auglýsingu í fréttatímum og umræðuþáttum. Jafnvel má gera ráð fyrir að einhverjir taki hleypidómana sem viðtekin sjónarmið sem rökrædd eru af alvöru.