Fimmtudagur 3. ágúst 2000

216. tbl. 4. árg.

Staða forseta Íslands innan stjórnskipunarinnar var til umræðu í Ríkissjónvarpinu í vikunni og var þar meðal annars minnst á þann möguleika að forsetinn neitaði að rita nafn sitt undir lög sem Alþingi hefði samþykkt. Eins og kunnugt er, þá stendur í 26. grein stjórnarskrár Íslands að synji forseti lagafrumvarpi staðfestingar þá skuli það verða að lögum sem svo skuli borin undir þjóðaratkæði. Viðmælendur fréttamanns voru báðir þeirrar skoðunar að um þetta ætti forsetinn persónulegt val. Eru fjölmargir aðrir á því að svo sé. En ekki allir.

Þór Vilhjálmsson
Þór Vilhjálmsson

Fyrir tæpum sex árum var gefið út rit til heiðurs Gauki Jörundssyni sextugum. Í það rit skrifaði Þór Vilhjálmsson grein sem hann nefndi Synjunarvald forsetans og fjallaði þar um þá spurningu „hvort forseti Íslands geti einn og án atbeina ráðherra synjað lagafrumvarpi staðfestingar samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar“. Væri svo, þá væri ljóst að um synjunina gilti ekki 1. málsgrein 13. greinar stjórnarskrárinnar sem segir forsetinn láti ráðherra framkvæma vald sitt. Kemur fram í grein Þórs að forseta Íslands sé getið í 30 greinum stjórnarskrárinnar og í 18 greinum sé það orðalag notað að forseti fari með tiltekið vald. Sé þó ljóst af orðum 13. greinar og áratuga framkvæmd að forsetanum sé ekki sjálfum ætlað að fara með það vald sem honum er þannig falið.

Þór segir að víst sé hugsanlegt að um 26. greinina – synjunargreinina – gildi öðru máli. Færir hann fram ýmis rök með og móti þeirri skoðun að forsetinn hafi persónulegt synjunarvald. Ekki eru tök á að reifa þau öll hér, en niðurstöður Þórs eru athyglisverðar. Samkvæmt 11. grein stjórnarskrárinnar er forseti „ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum“ og samkvæmt 19. grein hennar er nauðsynlegt að ráðherra undirriti lög og stjórnarerindi með forsetanum svo þau öðlist gildi. Undirskrift forsetans eins er þýðingarlaus. Þór segir í grein sinni, að „undirskrift hins ábyrgðarlausa forseta undir lagafrumvörp sé formsatriði, en ekki óhjákvæmilegt skilyrði fyrir því, að lögin taki gildi“. Það sé í samræmi við stjórnarskrána og það ríkiskerfi sem hún mæli fyrir um að annar handhafi ríkisvalds eigi hlut að lagasetningu með Alþingi. Þar sé „ekki öðrum til að dreifa en ráðherra“. Ráðherrann verði að eiga val um það hvort staðfest sé eða ekki.

Niðurstaða Þórs Vilhjálmssonar er sú, að synjunarvaldið sé hjá ráðherra en ekki forseta: „Ef þjóðhöfðingi vill neita um lagastaðfestingu og getur ekki fengið neinn til að bera ábyrgð á henni, er rökrétt að lögin taki gildi á grundvelli undirskriftar þess, sem ábyrgðina ber, þ.e. ráðherrans eins. Ef ráðherrann vill synja um staðfestingu og enginn finnst til að koma í hans stað, verður frumvarpið ekki að lögum af því að enginn er til að taka stjórnskipulega ábyrgð á lögtökunni.“ Í greininni segist Þór í vafa um svarið við spurningunni um synjunarvald forseta enda megi færa fram rök fyrir því að forsetinn hafi slíkt vald persónulega. Þó séu sterkari rök fyrir gagnstæðri skoðun og niðurstaða Þórs Vilhjálmssonar er þessi:

„Forseta ber því skylda til þess eftir stjórnarskránni að fallast á tillögu ráðherra um staðfestingu (undirritun) lagafrumvarps sem Alþingi hefur samþykkt. Ef svo ólíklega færi, að forsetinn undirritaði ekki, væri sú neitun þýðingarlaus og lögin tækju gildi sem staðfest væru og án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram.“

Eins og Þór nefnir eru einnig til rök fyrir gagnstæðri niðurstöðu og hafa ýmsir fræðimenn haldið þeim fram. Má þar nefna prófessorana Bjarna Benediktsson, Ólaf Jóhannesson og Sigurð Líndal. Eins og þeir þrír er Þór Vilhjálmsson í hópi þekktustu lögfræðinga landsins á þessari öld. Hann er nú forseti EFTA-dómstólsins en var dómari við Hæstarétt Íslands og Mannréttindadómstól Evrópu um tveggja áratuga skeið og þar áður prófessor í réttarfari við lagadeild Háskóla Íslands.