Miðvikudagur 26. júlí 2000

208. tbl. 4. árg.

Aukin ríkisumsvif á tuttugustu öldinni er viðfangsefni nýs rits Vito Tanzi hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (IMF) og Ludger Schuknecht hjá Alþjóða viðskiptastofnuninni (WTO). Þeir fjalla um OECD-löndin og segja frá því að árið 1913 hafi útgjöld ríkis og sveitarfélaga þessara ríkja numið innan við 13% af landsframleiðslu, sem var ekki mikið meira en 40 árum áður. 1937 var þetta hlutfall komið í 23%, 1968 var það 28%, en 46% árið 1996. Samkvæmt Tanzi og Schuknecht kom þessi aukning að mestu í tveimur stökkum, hinu fyrra með fyrri heimsstyrjöldinni og Kreppunni og hinu síðara á 6. og 7. áratugnum þegar áhrifa hagstjórnarkenninga Johns Maynards Keynes gætti mikið.

Áberandi er að á þessum tíma jókst hlutur niðurgreiðslna og tekjutilfærslna mikið. Árið 1930 voru þessir þættir um 5% af útgjöldum ríkis og sveitarfélaga en árið 1990 höfðu þeir aukist í 23%. Höfundarnir telja að fram til ársins 1960, þ.e. þegar hlutur hins opinbera var innan við 30%, hafi aukningin bætt lífsgæði, en eftir það hafi aukin útgjöld engu skilað.

Þá komast höfundarnir að því að meiri útgjöld ríkis og sveitarfélaga hafi ekki aukið mikið á jöfnuð milli manna og ekki einu sinni bætt heilbrigðis- eða menntakerfi. Það sýni samanburður milli landa. Ástæða þess að jöfnuður hafi ekki aukist við auknar millifærslur segja höfundarnir vera mikið tap á verðmætum þegar fært er frá einum til annars.

Niðurstaðan er því sú að á heildina litið verður mikið tap þegar reynt er að færa fé frá einum til annars í þeirri viðleitni að bæta kjörin og jafna aðstöðuna. Annað tapast, og það er ef til vill hluti skýringarinnar á þessum slæmu afleiðingum tekjutilfærslunnar, en það er hvatinn sem þarf að vera til staðar í hagkerfinu. Fólk verður að geta keppt að hærri tekjum til að það nenni að leggja sig fram, því það er jú vonin um ágóða sem rekur flesta menn áfram í vinnu. Þess vegna hefur þessi aukning umsvifa hins opinbera líka aukið atvinnuleysi og dregið úr hagvexti.

Því má bæta við hér að af þessum sökum er sérlega slæmt að laun forseta Íslands skuli hækkuð nú, þegar upplýst hefur verið hversu illa hann hefur haldið á málum fyrir hönd landsins erlendis. Gott hvatakerfi hefði auðvitað lækkað laun hans við flutning ræðunnar góðu í Los Angeles. Hins vegar er auðvitað líka skemmtilegt í ljósi þess hvernig Ólafur Ragnar Grímsson talaði fyrir fáum árum, þá formaður Alþýðubandalagsins, að hann skuli nú þiggja 1.250.000 krónur á mánuði frá launamönnum. Einhvern tímann hefði hvinið í kappanum af minna tilefni.

En burt séð frá framgöngu núverandi forseta lýðveldisins fyrr og nú, þá eru heldur engin rök fyrir launahækkuninni. Skattleysi forsetans var ekki til þess að bæta kjör hans heldur arfur frá gamalli tíð þegar viðhorf til þjóðhöfðingja voru önnur. Þetta var einhvers konar virðingarvottur sem ekki þykir ástæða til að sýna í dag. Þar að auki hafði ávinningurinn af skattleysinu farið mjög vaxandi með auknum umsvifum hins opinbera, en sem hlutfall af landsframleiðslu aukist um meira en helming frá því embættið var tekið upp. Rökin fyrir afnámi skattleysis voru í þessu ljósi sterk, en engin ástæða var til að hækka launin sem nam afnámi hinna gömlu forréttinda.