Menn skýra það með ýmsum hætti hvers vegna íbúum Vesturlanda, Eyjaálfu, Japan og Hong Kong hefur vegnað svo mikið betur en flestum öðrum íbúum heimsins á síðustu áratugum og öldum. Í bókinni How the West Grew Rich – The Economic Transformation of the Industrial World fara höfundar hennar Nathan Rosenberg og L.E. Birdzell, Jr. yfir nokkrar þeirra skýringa sem oft heyrast. Þeirra á meðal eru framfarir í vísindum og tækni, auðveldur aðgangur að náttúruauðlindum, sálfræðilegar skýringar, heppni, ójöfn skipting auðs, rányrkja, nýlendu- og heimsvaldastefna og þrælahald.
Rosenberg og Birdzell spyrja hvers vegna Kínverjum og hinum íslömsku þjóðum, sem voru leiðandi í vísindum og tækni, hafi ekki tekist að brjótast úr fátækt. Annað sem þeir segja að mæli gegn þeirri kenningu að framfarir í vísindum og tækni séu meginskýringin á velgengni á Vesturlöndum er að tækniþekkingu má auðveldlega flytja á milli landa en engu að síður dugi til dæmis ekki að flytja tækniþekkingu frá Vesturlöndum til þróunarlanda í dag til að koma hjólum efnahagslífsins til að snúast. Þeir segja þó að tækni hafi vissulega átt hlut að máli en dugi ekki sem meginskýringin á efnahagsframförum á Vesturlöndum.
Greiður aðgangur að náttúruauðlindum var ekki síst réttlæting á því að sum ríki lögðu nýlendur undir sig. En skýrir þessi aðgangur, sem oft á tíðum kostaði óheyrilegar fórnir, uppganginn? Sviss átti engar nýlendur og hvernig komust Japanir í álnir í seinni tíð án nýlendna? Og hvernig stendur á því að eftir síðari heimsstyrjöldina hefur ýmsum ríkjum sem eiga litlar sem engar náttúruauðlindir vegnað vel á meðan ýmis ríki sem eiga gríðarleg auðæfi í jörðu eru plöguð af örbirgð.
Heppni getur vart talist fullnægjandi skýring að mati bókarhöfunda. Það sé hreinlega ekki hægt að vera svo heppin sem Vesturlandabúar hafa verið í samanburði við aðra íbúa heimsins. Fleira hljóti að hafa komið til. Við séum þó vissulega heppin að því leyti að með okkur þróaðist kerfi frjálsra viðskipta sem erfitt sé að rekja til eins manns eða atburðar. Þetta kerfi hafi þróast löngu áður en Adam Smith tók að greina helstu þætti þess.
Ójöfn tekjuskiptin hefur fundist víða m.a. á Vesturlöndum fyrr á tímum án þess að menn hafi notið almennrar velmegunar. Í mörgum þróunarlöndum er til dæmis mun ójafnari tekjuskipting en í Bandaríkjunum. Ójöfn tekjuskiptin er ekki skýring á efnahagslegum bata en gæti verið eitt af skilyrðunum fyrir honum. Ójöfn tekjuskiptin er nauðsynleg til að laða fram það besta í okkur. Menn verða að njóta hagnaðar af verkum sínum til að framfarir verði.
Spánn og Portúgal voru mikil nýlenduveldi án þess að verða þróuð efnahagsveldi. Hvorki löndin sjálf né nýlendur þeirra náðu því marki. Nýlendustefna Breta gat hins vegar af sér þjóðfélög á borð við Bandaríkin, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjáland, Hong Kong og Singapúr. Auðvitað högnuðust Bretar á viðskiptum við þessi lönd enda ekki um nauðungarviðskipti að ræða heldur beggja hagur. Það er hins vegar ekkert sem bendir til þess að Frakkar hafi hagnast á nýlenduveldi sínu. Þýskaland getur vart hafa talist nýlenduveldi og ekki heldur Norðurlönd. Það virðist því ekkert samhengi milli heimsvalda- eða nýlendustefnu og efnahagslegrar velgengni.
Rosenberg og Birdzell segja það undantekningu að þrælar hafi verið notaðir í iðnaði á Vesturlöndum. Ódýrara vinnuafl hafi verið til staðar. Hagnaður af þrælaverslun hafi heldur ekki verið mikill í samanburði við aðrar greinar. Helsta dæmið sem menn nefna um ávinning af þrælahaldi er baðmullin sem þrælar unnu á ökrum Suðurríkja Bandaríkjanna og flutt var í breskar spunaverksmiðjur. Innflutningur baðmullarinnar var þó fremur afleiðing iðnvæðingar en forsenda fyrir henni. Ef til vill hefði vöxturinn í vefnaði Breta orðið hægari fram til 1861 ef þeir hefðu fengið baðmullina frá Egyptalandi, Indlandi eða frá búgörðum án þræla í Bandaríkjunum. En þau lönd Evrópu sem voru ekki nýlenduveldi héldu heldur ekki þræla en nutu engu að síður velgengni mörg hver. Spánverjar og Portúgalir héldu þræla víða í nýlendum sínum án efnahagslegra framfara í líkingu við marga nágranna sína. Þrælahald skipti því ekki sköpum að mati Rosenbergs og Birdzells.
Svar bókarhöfunda við spurningunni hvernig Vesturveldin urðu rík er einfalt. Í þessum löndum var valddreifing. Pólítískt vald var takmarkað og trúarlegar hömlur á undanhaldi og fólk hafði frelsi til rannsókna og til að hagnýta uppgötvanir sínar. Fólk naut ávinnings ef það fullnægði þörfum náungans með góðri vöru eða þjónustu.