Mánudagur 24. júlí 2000

206. tbl. 4. árg.

Þegar dró að forsetakosningum árið 1996 létu ýmsir sig hafa það að halda því fram að Ólafur Ragnar Grímsson fyrrum fjármálaráðherra og formaður Alþýðubandalagsins væri sérstaklega „hæfur“ til að gegna embætti forseta Íslands. Það fylgdi sögunni að hann væri svo vel til þess fallinn að koma fram á erlendri grundu fyrir Íslendinga hönd. Hann væri virðulegur og glæsilegur og því mætti líta fram hjá því hvernig hann hefði hagað sér í pólitíkinni innan lands. Eftir að hann náði kjöri og tók við embætti hefur svo heyrst að Ólafur Ragnar hafi nú „staðið sig vel í embætti“ og verið þjóð sinni til sóma. Eins og gefur að skilja er fátt nefnt þessum fullyrðingum til staðfestingar, þetta er bara eitthvað sem stuðningsmönnum hans hefur tekist að fá fólk til að trúa og hafa eftir.

Löndum Ólafs gefst sjaldan tækifæri til að fylgjast með því hvort hann „stendur sig“ raunverulega jafn vel og stuðningsmennirnir halda fram, því sjaldan sést hvað forsetinn gerir erlendis og lítið er um það fjallað. Á þessu varð þó breyting þegar hann flutti ræðu í maí síðast liðnum í Los Angeles, en þá spurðist út að hann hefði orðið þjóðinni til skammar með yfirgengilegu oflofi um hana. Í Morgunblaðið í gær ritar Steingrímur Pálsson fyrrverandi starfsmaður fjármálaráðuneytisins grein þar sem fjallað er um þessa ræðu og segir m.a.: „Yfirlætið og miklun Íslendinga er þvílík í ræðunni að okkur heimamönnum sem lesum hana hlýtur að finnast að verið sé að hæðast að okkur eftir þeirri fyrirsögn Snorra Sturlusonar að lof sem sé skrök og hégómi sé háð en ekki lof.“ Ræðuna birti greinarhöfundur í heild og má lesa hana hér.

En málið snýst ekki aðeins um það að Ólafur Ragnar hafi gengið allt of langt og þannig í raun hæðst að Íslendingum. Það má í sjálfu sér segja að þakkarvert sé að slíkur forseti hafi verið kjörinn, því þá sjá landsmenn skýrar en áður hvílíkt tildur og óþarfi embætti forseta er. Yfirgengilegar „opinberar heimsóknir“ núverandi forseta innan lands eru einnig til marks um þetta, enda lítils virði fyrir fólk í dreifðum byggðum landsins að fá mann í heimsókn til sín sem gegnir háu embætti og talar við það og um það eins og það sé allt saman börn.

Staðreyndin er sú að framganga Ólafs Ragnars í embætti forseta hefur sýnt fram á að embættið er ekki aðeins þarflaust heldur beinlínis skaðlegt. Það skaðar ímynd þjóðarinnar bæði inn á við og út á við og ætti að leggjast af. Á það hefur verið bent að öll þau verk sem nauðsynlegt er að sinna gagnvart útlendingum getur forseti Alþingis sinnt jafn vel eða betur en maður sem gegnir sérstaklega embætti forseta Íslands. Alþingi er gömul stofnun sem á sér merka sögu og erlendum þjóðhöfðingjum væri fullur sómi sýndur með því að forseti Alþingis tæki á móti þeim við komu þeirra til landsins í stað forseta Íslands nú. Opinberar heimsóknir innan lands og margt annað tildur og prjál mundi þá leggjast af, enda engin þörf á því meðal nokkurra jafningja að einn maður heimsæki annan „opinberlega“.