Sumt er þess eðlis að mörgum reynist erfitt að ræða það af yfirvegun og skynsemi. Sem dæmi um það má nefna dansstaðina í miðbæ Reykjavíkur og nokkurra annarra sveitarfélaga. Á þessum stöðum hafa áhugamenn um erótískan dans ýmist dansað eða horft á dans undanfarin misseri við litla ánægju þeirra sem minni áhuga hafa. Gegn þessum stöðum hafa menn beitt sér, gjarnan af ofsa og yfirlæti. Alþingismanninum Hjálmari Jónssyni – þeim sama og á dögunum sá ástæðu til að senda samþingmönnum sínum bréf til að hvetja þá til umburðarlyndis í garð ákveðins minnihlutahóps – er til dæmis svo í nöp við þá sem sækja staði sem þessa, að hann fullyrti á þingi að þeir væru „perrar“ sem þyrftu að vera á hæli. Þá hefur Kolbrún Halldórsdóttir ekki látið sitt eftir liggja í þessari baráttu og er mikið niðri fyrir.
Andstæðingar skemmtistaðanna hafa sett fram ýmsar kröfur. Þeir vilja flæma staðina úr miðbænum, þeir vilja loka stöðunum fyrir fullt og allt og þeir vilja ekki hleypa starfsfólki þeirra inn í landið. Og að frumkvæði samgönguráðherra var nú í vor samþykkt lagabreyting sem ætlað var að gera síðastnefnda markmiðið auðsóttara. En þetta fólk er ekki einungis á móti erótísku skemmtistöðunum. Það er á móti því sem það kallar klám og vill ekki að fólk fái að bjóða eða þiggja slíkt.
Í nýútkomu hefti tímarits Íslandsdeildar samtaka evrópskra laganema er, eins og gefur að skilja, grein eftir Kolbrúnu Halldórsdóttur sem nefnist því forvitnilega nafni Að kaupa eða selja kynmök. Kolbrún fjallar þar um ógnirnar sem stafa frá kláminu sem virðast vera talsverðar því að Kolbrún segir að staðfest sé að „klám hvetji til nauðgana eða annars refsiverðs athæfis“. Klámið lætur sér það ekki nægja heldur „kyndir undir ranghugmyndum og er þar af leiðandi skaðlegt“. Það þarf því engan að undra að Kolbrún hefur lagt fram frumvarp til laga um að hver sá sem „býður upp á kynferðislegar nektarsýningar“ skuli sæta allt að fjögurra ára fangelsi.
En það eru ekki allir sem fjalla um málin á þennan hátt. Í nýútkominni bók sinni, Afbrot og Íslendingar, fjallar dr. Helgi Gunnlaugsson, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands, meðal annars um klám og segir þar: „Samkvæmt rannsóknum í Danmörku leiddi lögleiðing kláms árið 1966 ekki af sér aukningu kærðra kynferðisglæpa (Kutchinski,1988). Jafnframt hafa rannsóknir sýnt svipaðar niðurstöður í Bandaríkjunum, Svíþjóð og Vestur-Þýskalandi þar sem fjöldi kynferðisglæpa jókst ekki þrátt fyrir aukið framboð klámefnis eða lögleiðingu kláms (Kutchinski. 1988). En sumt klámfengið efni getur vissulega auðveldað kynferðisglæpamönnum að réttlæta verk sín án þess að hægt sé að skella skuldinni á slíkt efni. Stundum heyrist því fleygt að klám standi í veginum fyrir jafnrétti kynjanna, að klám niðurlægi konur og ali jafnvel á kvenhatri (Russel, 1993). Þó að markaðurinn fyrir klám virðist óneitanlega meira ætlaður þörfum karla og að rannsóknir sýni að fleiri karlar en konur nýti sér efni af því tagi, hefur það í sjálfu sér ákaflega lítið með jafnrétti kynjanna að gera. Klám er einfaldlega fyrirbæri sem sumir sækjast eftir og aðrir ekki. Klám kemur hvorki í veg fyrir jafnrétti kynjanna né getur klám stuðlað að því.“