Sjúkraliðar eru ekki ánægðir með sín kjör. Reyndar eru þeir hundóánægðir og segjast vera láglaunastétt sem illa sé búið að. Á forystumönnum þeirra er gjarnan það að skilja, að sjúkraliðar búi við mjög kröpp kjör og þurfi að velta hverri krónu fyrir sér. Það breytir þó ekki því, að forystumennirnir telja sjálfsagt að taka á hverjum einasta mánuði nokkra upphæð af launum sjúkraliðanna í félagsgjöld. Það gera þeir með þeirri réttlætingu að þeir noti féð til að berjast fyrir bættum hag félagsmanna og standi sig raunar svo vel að óþarfi sé að spyrja sjúkraliðanna hvort þeir vilji vera í félaginu.
Kannski er eins gott að sjúkraliðarnir eru ekki spurðir. Að minnsta kosti er ekki víst að þeir séu allir jafn skynsamir og forystumenn þeirra sem vita hvað þeim er fyrir bestu. Til dæmis er óvíst að almennur sjúkraliði sjái nauðsyn þess að sjúkraliðar leggi fram fé til að lengja verkfall bifreiðastjóra. En þetta sjá forystumennirnir og í vikunni ákváðu þeir að félag sjúkraliða legði 250.000 krónur í verkfallssjóð bifreiðastjórafélagsins Sleipnis.
Hafnfirskur sjúkraliði, sem þessa dagana þarf að taka leigubíl í vinnuna vegna þess að ferðir almenningsvagna liggja niðri, getur nú huggað sig við það að fé það sem hann nauðugur greiðir til stéttarfélagsins, er notað til að lengja verkfallið. Það eina sem kann að skyggja á gleði hans er það, að hann er ekki jafn harður og frændi hans, rafiðnaðarmaðurinn. Rafiðnaðarsambandið er nefnilega búið að leggja eina milljón króna í verkfallssjóð bílstjóra þar sem það er brýnt hagsmunamál rafiðnaðarmanna að rútubílstjórar séu í verkfalli.
Það virðist því vera svo, að vissir forystumenn verkalýðsfélaga telji sig vera þátttakendur í einu allsherjarstríði gegn atvinnulífinu. Verkfall hljóti alltaf að vera af hinu góða og öllum í hag. Því lengra verkfall, því betra. Nauðsynlegt sé að „standa saman“ og að hver styðji annars aðgerðir, hverjar sem þær kunna að vera. Og þar sem þeir reka þessi stríð sín fyrir nauðungargjöld félagsmanna vaknar sú spurning hvort þeir séu að gera félagsmönnum gott með þessum baráttuaðferðum. Í raun er ekki óeðlilegt að spyrja hvort verkföll séu í raun til þess fallin að bæta kjör verkfallsmanna.
Í frægasta riti sínu, Economics in One Lesson, fjallar Henry Hazlitt m.a. um verkalýðsfélög og baráttu þeirra. Hann telur að þau geti þjónað ákveðnum tilgangi við að bæta aðstæður launamanna, en ef þeim takist að þrýsta launum upp fyrir markaðsverð vinnunnar valdi þau tjóni. Hann ræðir í bók sinni hvaða afleiðingar það hefur þegar verkalýðsfélög þrýsta launum yfir markaðsvirði þeirra með valdbeitingu. Afleiðingarnar geta birst með ýmsum hætti. Frá fyrri tíð hér á landi þekkja menn verðbólgu og gengisfellingar en niðurstaðan hefði til dæmis líka getað orðið atvinnuleysi. En hvaða leið sem er farin verður niðurstaðan í öllu falli ónýtt efnahagslíf og lakari kjör almennings.
Í bókinni segir Hazlitt að draga verði þá ályktun, að „þrátt fyrir að verkalýðsfélög geti um stundarsakir hækkað laun félagsmanna sinna, að hluta til á kostnað vinnuveitenda en þó meira á kostnað þeirra launamanna sem ekki eru í verkalýðsfélögum, geti þau ekki hækkað raunlaun launamanna í heild til lengri tíma litið.
Sú trú að þau geti það byggist á nokkrum ranghugmyndum. Ein þeirra er hugsunin post hoc ergo propter hoc – á eftir þessu og því vegna þessa – sem gengur út á það að gríðarleg hækkun launa síðustu hálfa öldina, hljóti að vera verkalýðsfélögunum að þakka úr því þeim óx mjög fiskur um hrygg á sama tíma. Staðreyndin er þó sú að þessa hækkun launa má aðallega þakka vexti í fjárfestingum og framförum í vísindum og tækni. En vitleysan felst aðallega í þeim mistökum að athuga einungis hverju launahækkun sem næst fram með kröfum verkalýðsfélaga skilar til skamms tíma þeim tilteknu launamönnum sem halda störfum sínum, en rekja ekki áhrif hækkunarinnar á vinnu, framleiðslu og framfærslukostnað allra launamanna, þar á meðal þeirra í félaginu sem þvingaði hækkunina fram.“
Í tengslum við umræðu um fjárhagsstyrk eins verkalýðsfélags til annars er ágætt að ítreka þetta og minna á eftirfarandi orð úr bók Hazlitts: „…furðuleg og þrautseig hugmynd er að hagsmunir allra launamanna þjóðar séu hinir sömu, og að launahækkun hjá einu verkalýðsfélagi hjálpi öllum öðrum launamönnum með einhverjum óljósum hætti. Það er ekki aðeins svo að þetta standist ekki, heldur er sannleikurinn sá að takist einhverju verkalýðsfélagi með valdbeitingu að þvinga laun félagsmanna sinna umtalsvert upp fyrir raunverulegt markaðsvirði á þjónustu þeirra, skaðar það alla aðra launamenn eins og það skaðar aðra þjóðfélagsþegna.“