Þriðjudagur 4. júlí 2000

186. tbl. 4. árg.

Calvin Coolidge
Calvin Coolidge

Telja má víst, að sá maður sem gegnir embætti forseta Bandaríkjanna hverju sinni, sé einnig einn þekktasti maður veraldar. Annað mál er hins vegar hversu vel veröldin man eftir þeim manni eftir að hann lætur af störfum. Sumir gleymast alls ekki – þó misjafnt sé hversu rétta mynd fólk gerir sér af þeim – en aðrir hverfa inn í sögubækurnar hratt og örugglega. Meðal þeirra Bandaríkjaforseta sem fáir gera sér tíðrætt um, er Calvin Coolidge. Þó eru þeir til sem öðru hverju nefna nafn hans, en það er þá yfirleitt til að hnýta í hann. Skólamenn og aðrir ríkisafskiptasinnar hafa til dæmis gjarnan haft horn í síðu Coolidge og talið hann hinn versta forseta. Calvin Coolidge er nefnilega gefið að sök að hafa komið færri hlutum í verk en nokkur annar forseti.

En hann ætlaði sér ekki að gera allt sem þrýstihóparnir eða fjölmiðlamenn vildu að yrði gert. „Það skiptir miklu meira máli að stöðva slæm frumvörp,“ sagði hann eitt sinn „ – en að reyna að berja góð í gegn.“ Coolidge var sannfærður um að ríkið ætti að eftirláta einstaklingunum olnbogarými og vildi ekki þrengja að atvinnulífinu með óþörfum reglugerðum og of háum sköttum. Á stjórnarárum sínum, en Coolidge tók við embætti árið 1923 og lét af því í ársbyrjun 1929, tókst honum að halda ríkisútgjöldum í skefjum og ef bréfberar eru undanskildir þá fjölgaði opinberum starfsmönnum ekki á þessum árum. Þá er ekki síður hrósvert að Coolidge tókst – þrátt fyrir andspyrnu þingsins – að lækka skatta nokkrum sinnum og halda aftur af reglugerðasmiðum hins opinbera.

Calvin Coolidge er líklega sá hógværasti í hópi þeirra manna sem gegnt hafa embætti valdamesta manns heims. Hann eignaðist hvorki íbúð né bifreið fyrr en eftir að hann lét af embætti en bjó í leiguhúsnæði svo til alla sína tíð. Hann var þekktur sem þögli forsetinn og hafði lítinn sem engan áhuga á að segja skoðun sína á öllu milli himins og jarðar eða gera nokkurn hlut til að ganga í augun á fjölmiðlamönnum eða öðrum fulltrúum hinna talandi stétta. Við það bættist sú skoðun hans, að mikill meiri hluti þeirra sem gengi á fund Bandaríkjaforseta, ætti það erindi eitt að þvinga fram óréttlætanlegan opinberan stuðning við hugðarefni sín. Við slíka menn taldi Coolidge sig eiga fátt vantalað. Fulltrúar þrýstihópa sem gerðir voru út á hans fund, urðu því oft frá að hverfa eftir „viðræður“ sem höfðu staðið góða stund án þess að forsetinn segði orð. Ekki fóru allir aðrir gestir forstetans meiri frægðarför. Kona ein, gestur í veislu í Hvíta húsinu, sat til borðs með forsetanum og sagði honum frá því að hún hefði veðjað við vinkonu sína um að henni myndi takast að fá hinn þögla forseta til að segja fleira en tvö orð í veislunni. „Þú tapar“ var það eina sem Calvin Coolidge sagði það kvöld.

Calvin Coolidge fæddist á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, 4. júlí 1872, og lést 5. janúar 1933. Nýlega kom út fróðleg bók um stjórnartíð hans, The Presidency of Calvin Coolidge, eftir Robert H. Ferrell. Bókin fæst hjá Amazon.com.