Helgarsprokið 2. júlí 2000

184. tbl. 4. árg.

Í bókinni eru meðal annars nefnd dæmi um að umhverfisverndarsinnar hafi ljáð sérhagsmunapoti siðferðilegan blæ.
Í bókinni eru meðal annars nefnd dæmi um að umhverfisverndarsinnar hafi ljáð sérhagsmunapoti siðferðilegan blæ.

Stríður straumur af lögum, reglum, boðum og bönnum um umhverfið hefur komið frá löggjafarsamkomum og ráðuneytum á Vesturlöndum undanfarna áratugi. Ekki skortir á að þessar reglur séu sagðar í þágu umhverfisins og almennings. En er svo? Um það efast ýmsir og þeirra á meðal er Terry L. Anderson en hann er ritstjóri nýrrar bókar sem ber heitið Political Environmentalism: Going Behind the Green Curtain. Anderson var annar höfunda bókarinnar Free Market Environmentalism sem kom út árið 1991. Í þeirri bók veltu Anderson og Donald R. Leal upp markaðslausnum á nýtingu náttúruauðlinda. Nú beinir Anderson ásamt samhöfundum sínum athyglinni að því hvað það er sem hefur áhrif á opinber afskipti af umhverfismálum.

Í inngangi bókarinnar segir Anderson: „Fólk virðist almennt álíta að lög um umhverfismál séu sett með hagsmuni náttúrunnar í huga og lögin hafi þau áhrif sem til var ætlast með setningu þeirra. Lög um umhverfismál hafa hreinlega verið talin hafin yfir sérhagsmunapot. Þessi viðtekna skoðun er hins vegar í algjörri andstöðu við það sem ritað hefur verið um hagfræði stjórnmálanna. Þar er almennt gengið út frá því að lög og reglur séu mörkuð af þrýstingi sérhagsmunahópa fremur en almennum hagmunum. Umhverfisverndarsamtök eru vissulega einn þessara þrýstihópa en það er ólíklegt að misjöfn umhyggja þeirra fyrir hinu og þessu í umhverfinu nægi til að skýra lagasetningu sem kostar bandarískt efnahagslíf milljarða dollara á hverju ári. Jafnvel þótt gömul lögspeki segi að magaveikir eigi hvorki að fylgjast með pylsugerð né lagasmíð ætlum við í þessari bók að kíkja undir græna tjaldið og skoða hvernig stjórnmál og umhverfisverndarhyggja eiga saman og skoða niðurstöðuna af því samkrulli sem oft á tíðum er undarleg.“

Annar kafli bókarinnar ber einmitt heitið „Public Choice and the Environment“ eða „Hagfræði stjórnmálanna og umhverfið“ og er eftir Bruce Yandle. Yandle notar dæmi frá suðausturríkjum Bandaríkjanna þar sem lög banna sölu á áfengi á sunnudögum. Lögin njóta stuðnings trúarhópa sem eru dyggilega studdir af bruggurum en forsenda fyrir starfi bruggaranna er auðvitað að venjulegar vínbúðir séu lokaðar. Bruggararnir ættu vitaskuld erfitt með að þrýsta á um bann af þessu tagi ef þeir hefðu ekki trúarhópana sem útvega einskonar siðferðilega réttlætingu á banninu. Á sama hátt er boðskapur umhverfisverndarsamtaka nýttur sem siðferðileg réttlæting á því þegar ýmsir sérhagsmunahópar vilja setja lög og reglur um umhverfismál. Þessi lög hindra oftar en ekki frjáls viðskipti og á því ætlar sérhagsmunahópurinn að hagnast. Dæmi um þetta eru ákvæði í lögum um loftmengun (Clean Air Act) frá 1977 sem kváðu á um að kolaorkuver settu upp dýran hreinsibúnað til að fjarlægja mengun úr útblæstri sínum, ekki síst brennisteinstvíoxíð, SO2. Á þessum tíma höfðu menn miklar áhyggjur af súru regni sem afleiðingu af útblæstri SO2 og þar með var komin réttlæting á þessari dýru tæknilausn á SO2 útblæstri. Engu að síður hefði mátt leysa þetta mál með því að brenna brennisteinsrýrum kolum frá vesturhluta Bandaríkjanna í stað brennisteinsríkra kola frá austurhlutanum. Kolaframleiðendur í austurhlutanum, umhverfisverndarsamtök og orkuver þrýstu á um óhagkvæmu lausnina og hún varð ofan á. Starfandi orkuver fengu svo að sjálfsögðu undanþágu frá reglunum um hreinsunarbúnaðinn þannig að reglurnar vernduðu þau gegn samkeppni frá nýjum orkuverum. Umhverfisverndarsinnar ljáðu sérhagsmunapotinu siðferðilegan blæ.

Political Environmentalism: Going Behind the Green Curtain fæst hjá Hoover Institution Press og kostar $19.95.