Laugardagur 1. júlí 2000

183. tbl. 4. árg.

Í nýjasta tölublaði Stefnis, tímarits ungra sjálfstæðismanna, er viðtal Hauks Þórs Haukssonar við Kjartan Gunnar Kjartansson sem var ritstjóri Stefnis á árunum 1973 – 1976. Kjartan Gunnar er inntur eftir því hvort Sjálfstæðisflokkurinn hallist um of til vinstri. Og Kjartan svarar: „Viðmið og kennimörk í stjórnmálum geta orðið mjög afstæð í tíma. Ísland í dag er gjörólíkt því samfélagi sem við vorum að reyna að breyta upp úr 1970. Ykkur finnst þróun í átt til frelsisins ekki nógu hröð. En gættu að því að um áratuga skeið var engin slík þróun til staðar, hvorki hröð né hæg.

Skömmtunarbók haftaáranna - jafnvel hörðustu vinstri menn mundu í dag líklega ekki segjast hlynntir því að rykið yrði dustað af þeim ófögnuði.
Skömmtunarbók haftaáranna – jafnvel hörðustu vinstri menn mundu í dag líklega ekki segjast hlynntir því að rykið yrði dustað af þeim ófögnuði.

Tökum nokkur dæmi: Fram að Viðreisnarstjórninni hafði sovéskur merkantílismi verið alls ráðandi í innflutningsmálum. Valdhafarnir skömmtuðu þjóðinni nokkur epli á jólum en að öðru leyti voru ávextir stranglega bannaðir hér á landi. Ávaxtasafi þekktist ekki og innflutningur á erlendum kextegundum, sælgæti og margvíslegri annarri neysluvöru, var stranglega bannaður. Löngu eftir að Viðreisnarstjórnin hafði komið og farið var þjóðinni meinað að neyta grænmetis. Eini aðilinn sem mátti flytja inn og dreifa grænmeti var svo kölluð Grænmetisverslun landbúnaðarins. Þessi makalausa einokunarstofnun sá um að skammta þjóðinni kartöflur, rófur, hvítkál og lauk. Blómkál og gulrætur voru á boðstólnum að meðaltali einn mánuð á ári og tómatar og gúrkur yfir hásumarið. Aðrar grænmetistegundir þekktust ekki hér á landi. Þegar íslensku kartöflurnar voru búnar fór Grænmetisverslunin á stúfana og flutti þá gjarnan inn svínafóður sem einhvern tíma höfðu verið kartöflur. Þetta svínafóður var selt í fimm kílóa brúnum pokum og þess vandlega gætt að innihaldið sæist ekki. Öllum kvörtunum kaupmanna og neytenda var svarað af slíkum hroka og dónaskap að það er ekki prenthæft.

Önnur einokunarstofnun, Sölufélag garðyrkjumanna, sá svo um að dreifa tómötum og gúrkum. Yfir hásumarið þegar framboðið var mest á þessum afurðum voru fleiri vörubílshlöss af gúrkum og tómötum keyrð á haugana svo ekki þyrfti að lækka verðið. Mjólkursamlög höfðu þá, eins og nú, einokun á vinnslu og dreifingu mjólkur. Mjólkurvinnsla var frumstæð og úrval á mjólkurvörum líklega innan við 5% af þeim mjólkurvörum sem nú eru á boðstólnum. Mjólk mátti einungis selja í mjólkurbúðum samlaganna. Kaupmaður á Austfjörðum var handtekinn og hnepptur í varðhald vegna þess að það hvarflaði að honum að selja mjólk í verslun sinni. Matvörukaupmönnum var stranglega bannað að hafa verslanir sínar opnar lengur en til kl: 18:00 á virkum dögum og til kl: 12:00 á laugardögum. Svo kölluð Fimm manna nefnd ákvað verð á kjöti og landbúnaðarafurðum en Verðlagseftirlitið hafði eftirlit með verði á matvörum í orðsins ströngustu merkingu. Stofnunin sendi út eftirlitsmenn sem voru á stöðugu vappi milli verslana og gættu þess að allir kaupmenn seldu vörurnar á nákvæmlega sama verði.

Lengst af var einungis ein áfengisútsala í Reykjavík og um miðja öldina var aðeins einn veitingastaður í höfuðborginni með vínveitingaleyfi, Hótel Borg. Þá var bannað að veita vín á miðvikudögum og auðvitað var stranglega bannað að brugga, flytja inn, dreifa, selja, kaupa og drekka bjór. Árið1970 var aðeins ein einokunarútvarpsstöð starfrækt í landinu að Kanaútvarpinu undanskildu. Það var ríkisútvarpið sem hélt úti einni rás. Dægurlög voru yfirleitt ekki spiluð í ríkisútvarpinu. Á Gufunni var ungu fólki skammtaður einn fjörutíu mínútna þáttur í viku, Lög unga fólksins, þar sem unglingar gátu sent kveðjur með nýjustu dægurlögunum. Eldri dægurlög heyrðust yfirleitt aldrei í ríkisútvarpinu. Tónlistarstjóri ríkisútvarpsins gat upp á sitt einsdæmi bannað að tiltekið íslenskt eða erlent dægurlag yrði spilað á þessari einu útvarpsstöð þjóðarinnar. Þá var hljómplatan rispuð svo þulirnir gætu ekki spilað lagið.

Á þessum árum var auðvitað bara ein sjónvarpsstöð og enginn heilvita maður hefði látið það hvarfla að sér að þær ættu eftir að verða fleiri. Hvað þá að þær yrðu í einkaeign. Ekkert sjónvarp var á þriðjudögum og fimmtudögum enda talið óhollt fyrir þjóðina að horfa á sjónvarp alla daga vikunnar. Útsendingartíminn var lengst af frá kl: 20:00 til 23:00. Fjármagnsfrelsi var ekkert, hlutabréfamarkaðir þekktust ekki og SÍS drottnaði yfir landbúnaðarvinnslu og meirihluta allrar verslunar og þjónustu á landsbyggðinni. Í þeim fáu afkimum atvinnulífsins þar sem einstaklingar gátu athafnað sig var heilbrigður fyrirtækjarekstur nánast útilokaður vegna verðbólgu sem ætíð jókst til muna þegar vinstri stjórnir komust að. Fyrir Viðreisnarstjórn ferðuðust Íslendingar ekki til útlanda, að undanskildum ráðherrum og örfáum stúdentum, enda mátti ekki eyða gjaldeyri. Sólarlandaferðirnar sem Ingólfur í Útsýn gerði að almenningsferðum hafa lengi verið skotspónn fyndinna menningarvita og ekki taldar merkilegar.

Ég held hins vegar að þessar ferðir hafi skipt sköpum í því að losa þjóðina úr áþján forsjárhyggju og einokunar. Þá fyrst fór almenningur að gera sér grein fyrir því að Páll á Höllustöðum er ekki einn í heiminum. Almenningur fór að átta sig á því hvernig Framsóknarmenn allra flokka höfðu kúgað þessa þjóð af miklu meiri heimsku og hroka en Danir höfðu nokkurn tíma gert. Ég gæti haldið svona áfram að lýsa fyrir þér Sovét-Íslandinu sem hér var við lýði frá sigri Hriflu-Jónasar og Framsóknarflokksins 1927 og lengst af 20. öldina. En ég held að þetta ætti að nægja til að veita ungu fólki nokkra innsýn í það hvað okkur hefur þó þokað á síðustu þrjátíu árum. Hér er það kannski ekki aðalatriði hversu hratt breytingarnar ganga fyrir sig. Hitt er mikilvægara að ekki verður aftur snúið til fyrra horfs. Ekki einu sinni Steingrímur Sigfússon myndi núna þora að mæla þeim frelsisskerðingum bót sem hér hafa verið taldar upp. Þó var hann hlynntur þeim flestum á sínum tíma og barðist gegn umbótunum.“