Fimmtudagur 8. júní 2000

160. tbl. 4. árg.

Stjórnmálamenn kveinka sér oft undan því að áhugi á pólitík sé lítill þ.e. að almenningur hafi ekki áhuga á því sem þeir eru að segja og gera. Þótt það blasi við að fólk vill gjarnan nýta tíma sinn í annað en að sitja undir ræðum þeirra sem féfletta það við hverja útborgun og hvar sem það kemur að versla er þetta ekki ný umkvörtun. Í ritinu Ófeigi fyrir hálfri öld mátti finna eftirfarandi lýsingu frá ritstjóranum Jónasi Jónssyni frá Hriflu: „Á blómaöld borgaraflokkanna 1917-37, þurftu leiðtogarnir ekki að hafa skemmtikrafta á samkomum sínum. Menn töluðu alvarlega um alvarleg mál. Fólkið fjölmennti og tók þátt í umræðum með áhuga. Sumarið 1935 héldu ræðumenn Framsóknarflokksins og Íhalds – eins og flokkurinn var þá kallaður, – fimmtán hundruð Húnvetningum í tólf tíma mjög ánægðum á útifundi á Sveinsstöðum. Þá sagði enginn að fundartíminn væri of langur.“

Og áfram hélt Jónas: „Nú er mjög breytt aðstæðum í þessu efni. Borgaraflokkarnir þrír geta ekki fengið fólk sitt til að koma áfundi nema með að hafa margskonar skemmtiatriði til að lokka menn til fundarsetu. Algengasta tálbeitan er dansinn, helzt með víni. Þar næst söngur, eftirhermur og búktal. Stundum gamanleikir og kvikmyndir. Annars vill fólkið helzt ekki koma til að hlýða á leiðtoga sína eða ræða um sameiginleg áhugamál.“

Í dag dugar ekki einu sinni að skemmtikraftar troði upp á flokkssamkomum til að draga fólk á staðinn. Lengst allra eru Bandaríkjamenn komnir í þessari þróun frá stjórnmálavafstrinu og hafa ekki einu sinni fyrir því að mæta á kjörstað. Fyrir það eru þeir gagnrýndir af evrópskum menntamönnum sem halda enn í vonina um að öll mál megi leysa með endalausum atkvæðagreiðslum í kjörklefum og þingsölum í stað þess að leysa þau milliliðalaust á markaðinum. Jónas Jónsson sá þessa þróun hér á landi fyrir fimmtíu árum. Hann sá þróunina en ekki ástæðuna fyrir henni. Hann hélt að þetta væri vissum forystumönnum flokkanna að kenna enda orðinn hornreka í eigin flokki. Hann sá ekki það sem Ronald Reagan benti síðar á: Stjórnmálamenn leysa ekki vandann, þeir eru vandinn.