Félagsmenn Samfylkingarflokkanna hafa undanfarnar vikur getað kosið sér formann til að taka við því hlutverki sem talsmaðurinn fékk frá formanni Alþýðuflokksins. Skilafrestur atkvæðaseðla var meira að segja lengdur svo allir yrðu nú með. Niðurstöðurnar liggja fyrir og hljóta að gleðja Samfylkingarforystuna: 60 % kusu alls ekki, rúmlega 30 % félaga styðja Össur Skarphéðinsson og hinir annað hvort skiluðu auðu eða kusu Tryggva Harðarson (bæjarfulltrúa í Hafnarfirði).
Forystumenn Fylkingarinnar hafa lýst því yfir að markmiðið með flokksstofnuninni sé að mynda flokk sem náð geti 30-35 % fylgi. Össur Skarphéðinsson er því réttur maður á réttum stað og gengur á undan sínum mönnum með góðu fordæmi: Hann er með þriðjungsfylgi í eigin flokki.
Þrátt fyrir að hægt gangi í að koma íslenskum landbúnaði af ríkisspenanum má segja að nokkuð hafi miðað í rétta átt í þeim málum á undanförnum árum. Framlög ríkisins hafa farið minnkandi og þau eru í auknum mæli nýtt til að „kaupa“ bændur frá óhagstæðum búskap í stað þess að viðhalda slíkum rekstri. Samhliða hafa svo sést tilraunir bænda til að markaðssetja vörur sínar á nýja vegu, t.d. með því að nýta sér eftirspurn á markaði eftir hvers konar „lífrænum“ landbúnaðarafurðum. Stjórnmálaflokkum gengur hins vegar misjafnlega að sætta sig við að ríkið skuli, hægt og rólega, vera að losa um tök sín á þessari atvinnugrein. Þeir hafa til dæmis margir látið mikið með hinn „lífræna landbúnað“. Það kemur hins vegar ekki á óvart að einu vinstri mennirnir sem fara ekki í felur með stjórnmálaskoðanir sínar skuli þráast við og hvetja til aukinna ríkisafskipta af landbúnaði. Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs skammast sín ekkert fyrir að vilja seilast í vasa skattborgara til að greiða fyrir hvers kyns starfsemi, hvort sem fé skortir til þeirrar starfsemi eður ei.
Vinstri grænir hafa lagt fram enn eina tillögu til þingsályktunar um aukin ríkisafskipti af landbúnaði. Í þetta sinn vilja þeir að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir aðgerðum til að veita bændum sérstakan aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað. Ekki vilja flutningsmenn halda því fram að þessi tegund landbúnaðar geti ekki borið sig sem slík enda segir í greinargerð með tillögunni að ljóst sé að markaður fyrir lífrænt vottaðar vörur vaxi stöðugt. Þess í stað eru rökin þau að sams konar framleiðsla á hinum Norðurlöndunum njóti slíkra ríkisstyrkja. Því þurfi ríkið að niðurgreiða framleiðslu „lífrænna“ landbúnaðarafurða á Íslandi. Þessi rökstuðningur kann við fyrstu sín að virðast góður og blessaður. Þeir niðurgreiða sína framleiðslu og því þurfum við að gera hið sama. Þegar betur er að gáð gengur málflutningurinn hins vegar ekki upp.
Sjávarútvegur stendur traustari fótum hér á landi en víðast hvar annars staðar í heiminum. Íslendingum hefur lánast að byggja upp atvinnuveg sem nær að vinna meiri verðmæti úr sjávarafla og með minni tilkostnaði en þekkist hjá öðrum þjóðum. Flestar aðrar þjóðir heims sem stunda sjávarútveg veita ríkisstyrkjum til starfseminnar. Lítið samband er hins vegar milli þess fjárausturs og afkomu sjávarútvegs í viðkomandi ríkjum. Því er jafnvel svo farið að þar sem ríkisstyrkir til sjávarútvegs eru hvað hæstir er nýting aflans einna lélegust og rányrkja mikil. Hvernig skyldi þessu svo vera farið á Íslandi? Hér eru engir teljandi ríkisstyrkir til sjávarútvegs. Það næsta sem við komumst slíku er líklega hinn einkennilegi skattaafsláttur sjómanna. Sjávarútvegur hér á landi hefur því í seinni tíð fengið töluverðan frið fyrir afskiptum stjórnmálamanna. Árangurinn hefur heldur ekki látið á sér standa.