Björn Bjarnason menntamálaráðherra fagnar opnun Þjóðmenningarhúss í pistli á heimasíðu sinni nú í vikunni og víkur einnig að fyrirhugaðri byggingu tónlistarhúss með þessum orðum: „Ég rifjaði það til dæmis upp í afmælisræðu vegna Þjóðleikhússins, að Kristján Albertsson taldi Þjóðleikhúsið gjörbreyta Reykjavík og gefa henni heimsborgarlegan svip og bæði hann og Jónas Jónsson frá Hriflu hafa orð á því, að með Þjóðleikhúsinu hafi orðið breyting á framgöngu og yfirbragði Íslendinga, þeir hafi klætt sig með virðulegri hætti og orðið hátíðlegri á mannamótum en áður.
Er ekki nokkur vafi á því, að með tónlistarhúsi og ráðstefnumiðstöð ásamt hágæða hóteli við Reykjavíkurhöfn verður enn breyting á höfuðborginni og þar með á þjóðlífinu í heild. Þau mannvirki eiga sér eðlilega gagnrýnendur, sem telja, að opinberu fé megi verja á annan hátt. Við getum á hinn bóginn spurt, hvar við værum á vegi stödd, ef úrtölumenn hefðu ráðið ferðinni. Þá ættum við hvorki Þjóðmenningarhús né Þjóðleikhús.“
Það er auðvitað erfitt við að eiga þegar klæðasmekkur Hriflu-Jónasar er orðinn sérstakur rökstuðningur fyrir því að nokkur þúsund milljónum króna úr vösum almennings verði varið til þess að byggja tónlistarhús. Um úrtölumennina, sem Björn nefnir svo, er hins vegar það að segja að það fé sem stjórnmálamenn taka með sköttum af fólki verður ekki notað annars staðar. Með öðrum orðum sjáum við blessuð húsin sem byggð eru til að gera okkur að heimsborgurum en ekki hvað hefði orðið til í stað þeirra ef fólk hefði fengið að ráðstafa fé sínu sjálft. Þeir sem krefjast hærri ríkisútgjalda og þar með hærri skatta eru að tala fyrir því að dregið verði úr framkvæmdaþreki einstaklingsins. Þeir eru sannkallaðir úrtölumenn.