Því er stundum haldið fram að Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið til að tryggja áhrif okkar á „ákvarðanaferlið“ eins og það heitir á samkomum hjá Samtökum evrópusinna. Í gríska blaðinu Kathimerini í gær er sagt frá því að Theodoros Pangalos menningarmálaráðherra Grikklands muni í næstu viku halda til Brussel til fundar við hóp af evrópskum stjórnmálamönnum og fleira fyrirfólki til að velja opinbert „mottó“ fyrir Evrópusambandið. Væri ekki frábært ef við Íslendingar gætum tekið þátt í slíku „ákvarðanaferli“?
Almenningssamgöngur hafa á sér mikinn helgiblæ, þeim er sjaldan hallmælt opinberlega og fyrir kosningar lofa allir stjórnmálaflokkar að „bæta“ þær. Með almenningssamgöngum er þó ekki átt við þær samgöngur sem almenningur notar heldur þær sem stjórnmálamenn vilja að almenningur noti (vart þarf að taka fram að stjórnmálamennirnir nota ekki þessar almenningssamgöngur sjálfir). Ef að stjórnmálaflokkar vilja bæta þær samgöngur sem almenningur notar, í stað þess að ausa fé í almenningssamgöngur sem enginn notar, þarf að stöðva fjáraustur í opinberar stofnanir á borð við SVR og lækka skatta á einkabílinn. Einkabíllinn er eina samgöngutækið sem á nokkurt tilkall til þess að vera kennt við almenning.
Lesandi sendi Vef-Þjóðviljanum línu þar sem hann benti á afleiðingar óhefts prentfrelsis fyrir umhverfið. Þannig er nefnilega mál með vexti að National Geographic er efnismikið og vandað tímarit sem menn henda ekki heldur geyma ýmist í kjöllurum eða á háaloftum í Bandaríkjunum. Fyrstu tölublöð tímaritsins voru að vísu ekki stór en síðan hefur blaðið bólgnað út. Það mun hafa verið reiknað út af sérfræðingum hve langur tími líður þar til þunginn frá blöðunum er orðinn svo mikill Bandaríkin kikna undan honum og hverfa í sæ. Umhverfisverndarsinnum hefur láðst að fjalla um þessa framtíðarvá sem steðjar að mannkyni.