Hvers vegna á íslenska ríkið að selja ilmvötn, spurði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra í Silfri Egils á Skjá 1 í fyrradag. Eðlilega varð fátt um svör hjá þáttarstjórnandanum en ástæða þess að Halldór spurði þessarar spurningar er sú að íslenska ríkið rekur verslanir á Keflavíkurflugvelli þar sem það selur snyrtivörur og ýmsan annan glysvarning, ekki síst varning sem var hér á árum áður nefndur lúxus og menn voru grænir af öfund vegna. Ögmundi Jónassyni og fleirum grænum af vinstri þykir það afar mikilvægt að ríkið haldi áfram að selja þessar vörur. Ögmundur er raunar andvígur allri einkavæðingu þar sem þá fækkar þeim sem greiða nauðugir félagsgjöld í Bandalag starfsmanna ríkis og bæja þar sem sami Ögmundur er formaður.
Utanríkisráðherra kom einnig við sögu í gær þegar hann lagði fram skýrslu um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi taldi Sighvatur Björgvinsson upp kosti þess að Íslendingar gangi í ESB. Einn helsti kosturinn að hans mati felst í því að þá munu íslenskir neytendur geta keypt evrópskar landbúnaðarafurðir að vild. Það má ef til vill benda Sighvati á að innflutningshöft og verndartollar gagnvart erlendum landbúnaðarafurðum eru sjálfskaparvíti okkar Íslendinga. Við getum með öðrum orðum aflétt þessum hömlum hvenær sem er og án þess að fara í margra ára samningaviðræður um inngöngu í ESB. Með því að afnema þetta sjálf ættum við einnig kost á að kaupa grænmeti frá öðrum löndum en Evrópulöndum en ESB er lítið fyrir að hleypa vörum frá löndum utan bandalagsins inn á heimamarkaði sína.