Mánudagur 10. apríl 2000

101. tbl. 4. árg.

„Þetta finnst þjóðinni of lág laun“, segir í auglýsingu frá félagi lögreglumanna í Morgunblaðinu í gær en þar kynna lögreglumenn niðurstöður úr skoðanakönnun meðal 1200 Íslendinga á því að nýútskrifaðir lögreglumenn hafi 100 þúsund krónur í mánaðarlaun. Niðurstöður könnunarinnar voru þær að 80% finnast þessi laun of lág, 19% sanngjörn og 1% of há. Í þessari auglýsingu kemur fram sá leiði siður að vitna um vilja heillar þjóðar svona eins og ekkert sé sjálfsagðara en að 278 þúsund manns geti verið sammála um eitthvað. Þetta einkennir til að mynda málflutning sumra stjórnmálamanna af vinstri vængnum. Oftast er aðeins gerð krafa um meiri hluti spurðra hafi látið ákveðna skoðun í ljósi í skoðanankönnun og þar með hafi allir þá skoðun. Vilji einstaklingsins skiptir engu máli.

Dómurinn sem féll yfir Microsoft í síðustu hefði væntanlega átt að kæta helstu keppinauta fyrirtækisins enda var það niðurstaða dómsins að neytendur hefðu haft rangt fyrir sér þegar þeir keyptu hugbúnað frá Microsoft. En almennt tók verð hlutabréfa í helstu keppinautum Microsoft dýfu við dómsuppkvaðningu. Þetta kemur ekki á óvart enda hlýtur markaðurinn að bregðast illa við því að stjórnvöld hundelti fyrirtæki sem framleiða eftirsóttar vörur á þennan hátt. Það voru því fleiri en eigendur Microsoft, starfsmenn sem eiga lífeyri bundinn í bréfum félagsins og almennir fjárfestar í félaginu sem töpuðu fé við dómsuppkvaðningu 4. apríl. Þau fyrirtæki, sem einhverjir hafa vonað að myndu hagnast á íhlutun ríkisins í hin blómlegu viðskipti Microsoft og neytenda, máttu einnig sætta sig við neikvæðar afleiðingar hennar. Tölvuiðnaðurinn í Bandaríkjunum hefur búið við lítil ríkisafskipti (fyrir utan það að ríkisstarfsmaðurinn Albert Gore fann upp Internetið), lítið regluverk og lága skatta enda hefur uppgangurinn verið eftir því. Fjárfestar kunna því illa ef þessu frjálslega umhverfi verður breytt og fyrirtækin verða skotspónn ríkisvaldsins.