Sauðkindin er notadrýgsta skepna landsins. Menn hafa ekki aðeins ríflega styrki frá ríkinu til að beita henni á gróðursnautt land heldur einnig til að græða landið upp aftur. Bæði landbúnaður og landgræðsluiðnaðurinn njóta góðs af verkum hennar. En undanfarið hafa menn efast um réttmæti þess að styrkja kindina og því hafa bæði ullarstyrkir (hárgreiðslur) og kjötstyrkir verið felldir niður og hefðu menn þá haldið að ekki mætti herja út fleiri styrki fyrir rolluskrokkinn. Bændur hafa þó séð við þessu og nú fá þeir beingreiðslur.
Í gærkvöldi var sýnd á Stöð 2 „leikin heimildamynd“ um hlutverk kynjanna. Margir áhorfendur hafa eflaust haldið að myndin væri framhald á gamanþætti Fóstbræðra sem sýndur var á undan en svo var ekki þótt vart mætti á milli sjá hvort væri nær því að vera heimildamynd um lífið í landinu eða hvort væri hlægilegra. Þátturinn um hlutverk kynjanna var framleiddur með styrkjum frá nokkrum opinberum stofnunum, þeirra á meðal jafnréttisráði ríkisins. Í stuttu máli sagt var boðskapur þessa þáttar sá að það sé með öllu óeðlilegt að sambýlisfólk ákveði verkaskiptingu innan heimilisins sjálft. Einhver Ingólfur V. Gíslason á jafnréttisjötu ríkisins hefur víst ákveðið þetta fyrir okkur hin og var vitnað í hann um helstu atriði varðandi samskipti kynjanna. Eftir því skulu menn fara en eiga ella á hættu að passa ekki inn í hina góðu hegðun sem lýst er í „leiknum heimildarmyndum“ styrktum af hinu opinbera. Þátturinn var auk þess fullur af áróðri um að konur séu kúgaðar og annars flokks, ja gott ef ekki þrælar. Þrælahaldararnir eru karlkyns atvinnurekendur, eiginmenn, feður, bræður og synir sem studdir eru af svikurum úr röðum kvenna. Einkennisbúningur svikaranna er eldhússvuntan en þá má einnig þekkja úr á miklum metnaði í hinum hryllilegustu verkum, sérstaklega húsverkunum. Svonefnd kvenfrelsisbarátta hefur því miður verið mörkuð af þessum niðrandi vesalingaboðskap um konur og er hvorki konum né körlum greiði gerður með því.