Í gær lagði Samband ungra sjálfstæðismanna fram tillögur sem miða að því að greiða niður hreinar skuldir ríkisins á yfirstandandi kjörtímabili. Niðurgreiðsla skulda er þegar hafin, en ungum sjálfstæðismönnum þykir að hægt gangi. Í tillögum þeirra er gert ráð fyrir að fjármagna megi niðurgreiðslu skuldanna annars vegar með sölu á Landssímanum og ríkisviðskiptabönkunum og hins vegar með þeim afgangi sem orðið getur á fjárlögum ef útgjöld eru ekki aukin frá því sem nú er. Þannig er reiknað með að Landssíminn muni skila um 70 milljörðum króna og ríkisviðskiptabankarnir um 40 milljörðum króna og er lögð á það áhersla að nú sé góður tími til að selja því verð sé hátt. Auk þess er reiknað með að afgangur á rekstri ríkissjóðs – að því gefnu að ríkisútgjöld hækki ekki – muni samtals verða um 80 milljarðar króna. Þegar litið hefur verið til bókfærðs virðis þeirra eigna sem gert er ráð fyrir að selja er niðurstaðan af þessum tölum sem sagt sú, að hægt sé að greiða að fullu hreinar skuldir ríkisins, en þær nema nú um 173 milljörðum króna.
Eins og meðfylgjandi mynd sýnir hafa tekjur ríkissjóðs aukist gífurlega á síðasta áratugi aldarinnar. Þetta stafar sérstaklega af því góðæri sem ríkt hefur á seinni hluta hans, en engin ástæða er til að ríkið þenji sig út með þessum hætti þó möguleikar séu til þess vegna aukinna tekna einstaklinga og fyrirtækja. Útgjöld ríkissjóðs hafa ekki vaxið alveg að sama skapi og skýrir það þann viðsnúning sem orðið hefur úr hallarekstri yfir í afgang af ríkissjóði. Útgjöldin hafa þrátt fyrir þetta vaxið verulega og því er óhætt að taka undir með Sambandi ungra sjálfstæðismanna að útgjöld hins opinbera verði að frysta. Það er raunar lágmarkskrafa, því vitaskuld ætti að draga úr þeim.
Þetta ættu bæði fjármálaráðherra og talsmenn aukinna ríkisútgjalda að hafa í huga, en á næstunni, eins og raunar ævinlega, verða mýmörg útgjaldamál til umræðu. Nægir þar að nefna kröfu ýmissa útgjaldaglaðra um að boruð verði jarðgöng í nokkur fjöll á landinu þrátt fyrir að öllum sé ljóst að þær framkvæmdir geta aldrei orðið arðbærar. Hið sama gildir um göt í fjöll og aðrar framkvæmdir að besta leiðin til að komast að raun um hvort þær eru arðbærar eða ekki er að láta einkaaðila um þær og leyfa þeim að taka gjald af notendum. Þannig er sjálfsagt að leyfa hverjum sem er að bora gat í fjall telji hann rekstrargrundvöll fyrir því, en hann verður sjálfur að taka áhættuna og bera skaðann reynist áætlanir rangar. Fullvíst er að útgjaldagleðin mundi minnka ef menn þyrftu þannig að bera sjálfir kostnað af útgjaldahugmyndum sínum.