Ísland býr yfir miklum endurnýjanlegum orkulindum, fallvötnum og jarðvarma. Þær marka landinu raunar sérstöðu. Þjóðir annarra landa hafa lagt mikla fjármuni í að þróa aðferðir til að nýta endurnýjanlegar orkulindir. Árið 1987 sagði Scott Sklar framkvæmdastjóri Sólarorkuframleiðenda í Bandaríkjunum að árið 2000 myndi sólarorkuiðnaðurinn „auðveldlega“ sjá Bandaríkjamönnum fyrir 10 til 20% þeirrar orku sem þeir þyrftu. Nú árið 2000 mætir sólarorkuiðnaðurinn 0,05% af orkuþörfinni. Árið 1976 áætlaði bandaríska orkumálaráðuneytið að árið 1995 myndi vindurinn sjá fyrir 20% af raforkuþörfinni en sú spá hefur ekki alveg ræst þar sem vindurinn sér nú fyrir 0,2% af raforkuþörfinni. Helsta ástæðan fyrir því hve sól- og vindorka hafa átt erfitt uppdráttar er bæði veðrið og verðið. Þrátt fyrir mikla ríkisstyrki til þróunar og rannsókna á þessum orkulindum skín sólin ekki alltaf og vindurinn blæs frekar mikið og stopult en jafn og þétt. Verðið á orkunni frá vindmyllum og sólarorkuverum er enn sem komið er margfalt hærra en frá gas-, olíu- og kolaorkuverum.
Þetta hlýtur að koma þeim á óvart sem sífellt eru að segja okkur að jarðeldsneyti sé að ganga til þurrðar. Ef svo væri hlytu jarðgas, olía og kol að hækka mjög í verði og aðrir orkugjafar að ná til sín aukinni markaðshlutdeild. En ástæðan er einföld. Þegar rætt er um að olíubirgðir dugi í X ár er átt við þær olíulindir sem hagkvæmt og tæknilega mögulegt er að nýta miðað mið olíuverð þá stundina. Um leið og olíuverð hækkar verða fleiri olíulindir hagkvæmar og sömuleiðis ef ný tækni til að bora eftir olíu kemur fram. Árið 1944 var talið að í löndunum við Persaflóa mætti vinna olíu í 21 milljarð tunna. Á árunum 1944 til 1993 var olíu dælt í 188 milljarða tunna eða nífalt það magn sem menn töldu vinnanlegt árið 1944. Og það sem meira er: Vinnanlegar birgðir við Persaflóann duga í 633 milljarða tunna í viðbót.