Mánudagur 14. febrúar 2000

45. tbl. 4. árg.

Í Lesbók Morgunblaðsins um helgina er rætt við fulltrúa áhugamannaleikhúsa á Húsavík og Dalvík í tilefni þess að Bandalag íslenskra leikfélaga er 50 ára á þessu ári. Blaðamaður spurði meðal annars hvað þeim fyndist „um þá hugmynd að leikfélögin nytu svo ríflegra styrkja að þau þyrftu ekki að selja aðgang að sýningunum“. Svar áhugaleikaranna er athyglisvert. Þeir segja þetta vissulega vera freistandi hugmynd, en benda jafnframt á að „krafturinn og spennan sem starfsemin þrífst á sé einmitt fólgin í því að vera stöðugt að leita leiða til að láta enda ná saman.“ Auk þess er lýst áhyggjum yfir því að þau mundu fjarlægjast áhorfendur með þessu og gleyma hvað þeir eru mikilvægir.

Þetta er einmitt mikilvægt atriði þegar menn velta því fyrir sér hvort hið opinbera ætti að styrkja menningarstarfsemi. Eða hvaða starfsemi sem er, ef út í það er farið. Þegar hið opinbera fjármagnar slíka starfsemi rofna tengslin við neytendurna, hvort sem þar er um að ræða neytendur menningar, íþrótta eða einhvers annars. Ef hið opinbera „gefur“ öllum „ókeypis“ mat er til dæmis afskaplega ólíklegt að fólk fái þann mat sem það helst kýs vegna þess að framleiðendur og seljendur matarins hafa þá litla hugmynd um hvað fólk vill helst borða. Hið sama á við um leiklist. Ef ríkið niðurgreiðir leiklist að hluta til eða jafnvel að öllu leyti eru litlar líkur til að leikhópar og leikhús sýni einmitt það sem fólk vill helst sjá. Tengslin við áhorfendur minnka og geta jafnvel rofnað að fullu ef styrkirnir eru of miklir.

Sigurður Líndal lagaprófessor ritar grein í nýjasta tölublað Fiskifrétta undir fyrirsögninni „Um varanlegan eignarrétt og atvinnufrelsi“ þar sem hann fjallar um Vatneyrarmálið og stjórnkerfi fiskveiða almennt. Hann víkur m.a. að atriði sem er furðu lítið nefnt í þessari umræðu, en það er hvert hlutverk hins opinbera eigi að vera. Hann ræðir þá skoðun sumra að nýir aðilar komist ekki inn í kerfið eins og það er nú og bendir á að Samherji hafi t.d. keypt verulegar hluta kvótaeignar sinnar auk þess sem menn geti keypt sig inn í útgerðarfyrirtæki.

Hann heldur svo áfram og segir: „Áþekkt hlyti að gerast ef ríkisvaldið tæki veiðiheimildirnar af útgerðinni (sem er þó óvíst að stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttarins) og byði þær upp nema við það rynnu fjármunirnir til ríkisins. Umræðan ætti að snúast um, hver eigi að vera hlutur ríkisins í efnahagslífi þjóðarinnar – og þá hvort skynsamlegt sé að auka hann. En þá umræðu virðast menn forðast eins og heitan eldinn. Hér verður að hafa í huga að tækifæri manna hljóta að breytast eftir því sem atvinnulífið breytist og þjóðfélagið allt.“

Oftast þegar rætt er um auðlindaskatt (sem sumir kjósa að kalla því vinalega nafni „veiðigjald“) eða uppboð á aflaheimildum gleymist að þar með er verið að auka umsvif hins opinbera. Reynslan ætti þó að hafa kennt mönnum að það eru einmitt umsvif hins opinbera sem geta skipt sköpum um velmegun fólks í framtíðinni. Sé hlutur hins opinbera aukinn dregur úr þrótti atvinnulífsins til verðmætasköpunar og þar með er dregið úr velsæld alls almennings.