Vafalaust telja margir sig sjá þess merki að loftmengun fari vaxandi á Vesturlöndum. Ekki síst vegna aukinnar umferðar. Menn vilja gjarna gleyma því að framfarir hafa orðið í bíla-, bílvéla- og eldsneytisframleiðslu. Vegna þessara framfara hefur dregið úr loftmengun í Bandaríkjunum. Í meðfylgjandi töflu sést hvernig magn fimm efna í andrúmslofti hefur breyst þar undanfarin tuttugu ár. Ekki er sérstök ástæða til að ætla annað en að þessi þróun haldi áfram. Ný og létt efni eru sífellt að ryðja sér til rúms í bílaframleiðslu, vélar nýta eldsneyti betur og skila minni mengandi útblæstri en áður og eldsneyti er breytt á hverju ári með það fyrir augum að minnka skaðlegan útblástur.
Efni | Breyting á styrk í andrúmslofti frá 1977 – 1997(*) |
Köfnunarefnsdíoxíð | -27% |
Óson | -30% |
Brennisteinsdíoxíð | -58% |
Kolmónoxíð | -61% |
Blý | -97% |
(*)Tölurnar í töflunni eru fengnar úr skýrslu CATO Institute sem byggir á skýrslu bandarísku umhverfismálastofnunarinnar (EPA) um loftmengun .
En hvernig er staða þessara mála hér á landi? Í skýrslu Jóns Benjamínssonar hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sem kom út í desember 1999 er fjallað um mælingar á mengun í andrúmsloft í Reykjavík á árunum 1995 til 1998. Sambærilegar mælingar hafa verið gerðar á andrúmslofti þessi ár á nokkrum stöðum í Reykjavík. Í stuttu máli sagt kemur fram að loftmengun frá útblæstri bifreiða (NO2, SO2 og CO) hefur farið minnkandi þessi ár. Vafalaust er sömu sögu að segja af blýmengun en hætt var að flytja inn blýbætt bensín árið 1995 og gera má ráð fyrir að blýmengun hafi af þeim sökum fallið um 99% frá því hún var mest. Sú mengun sem hefur hins vegar aukist er svifryk sem er ekki síst uppspænt malbik. Nagladekkin eiga þar verulega sök og þessi tegund mengunar helst því í hendur við aukna umferð. Ekki er gott að sjá hvernig bregðast má við þessu með öðrum ráðum en að þvo götur borgarinnar reglulega eða draga úr notkun nagladekkja.
Til að hraða þeirri jákvæðu þróun sem á sér stað varðandi mengun frá útblæstri bifreiða þurfa stjórnvöld að leiða hugann að því að auðvelda almenningi að endurnýja bíla sína. Nýir bílar menga mun minna en gamlir og í Bretlandi hafa menn áætlað að allt að 50% mengunar frá bílaflotanum komi frá þeim 10% bíla sem eru elstir. Í dag má segja að íslensk stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að gömlum mengandi bílskrjóðum sé skipt út fyrir nýja nema að hreinlega banna innflutning þeirra. Það þarf að lækka skatta á bíla.