Laugardagur 12. febrúar 2000

43. tbl. 4. árg.

Enn bætist við þann kostnað sem skattgreiðendur munu þurfa að bera verði af byggingu tónslistarhúss. Nú hefur verið upplýst að 500 milljónum króna hið minnsta þurfi að eyða í framkvæmdir við höfnina verði byggt þar. Færa þarf þá starfsemi sem telst standa í vegi fyrir væntanlegu tónlistarhúsi og koma henni fyrir annars staðar. En 500 hundruð milljónir króna þykja auðvitað aðeins smápeningar þegar reisa á hið mikla tónlistarhús því þegar er ljóst að það mun kosta skattgreiðendur þúsundir milljóna króna. Peningar skipta raunar engu máli að mati þeirra sem berjast fyrir byggingu tónlistarhúss, því þeir hafa kosið að berjast fyrir byggingu þess á þeim stað sem það verður dýrast. Eftir nýjustu upplýsingar lítur út fyrir að bygging hússins við höfnina verði að minnsta kosti einum milljarði dýrari en bygging sambærilegs húss í Laugardal. En það er víst ekki nógu fínt að hafa húsið þar.

Þó tókst með ágætum að spila og syngja Aidu eftir Verdi í Laugardalnum í fyrradag og í kvöld verður enn reynt að koma verkinu til skila á sama stað. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kristján Jóhannsson, Sigrún Hjálmtýsdóttir og fleiri ágætir listamenn hafa valið Laugardalshöllina til að setja upp þessa sýningu og þykir tónlistarunnendum húsnæðið ekki lakara en svo að þar var hvert sæti skipað í fyrradag. Og ekki voru viðtökurnar heldur slæmar þannig að áheyrendur virðast almennt hafa verið hæstánægðir. Jón Ásgeirsson tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins segir í blaðinu í dag: „Allur umbúnaður, sem hafði verið endurbættur frá fyrri óperuuppfærslum í Laugardalshöllinni, var furðanlega vel heppnaður, svo að í heild var flutningurinn mjög góður og á köflum áhrifamikill og er söngfólki og ekki síst hljómsveitarstjóranum Rico Saccani svo fyrir að þakka.“ Ekki verður af þessu dregin sú ályktun að brýna nauðsyn beri til að þyngja skattbyrði landsmanna um þúsundir milljóna króna. Þvert á móti hlýtur öllum sem hugsa málið af yfirvegun að vera ljóst að engin skynsamleg ástæða er til byggingar tónlistarhúss.