Föstudagur 11. febrúar 2000

42. tbl. 4. árg.

Eins og sagt var frá hér í Vef-Þjóðviljanum á þriðjudaginn stendur til að setja ný lög um jafnréttismál kynjanna. Þá er ekki úr vegi að skoða hvernig núverandi lög um sama efni hafa reynst. Í þeim segir í 12. grein: „Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar og skal ávallt á það minnt þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi stjórnir, nefndir og ráð.“ Þetta er eitt skýrasta ákvæðið í þessum annars loðnum lögum. Í jafnréttisráði ríkisins eru engu að síður 7 konur og enginn karl samkvæmt heimasíðu félagsmálaráðuneytis. Í jafnréttisráði eru 6 konur og einn karl samkvæmt heimasíðu skrifstofu jafnréttismála. Á skrifstofu jafnréttismála eru 5 konur og 1 karl. Í karlanefnd jafnréttisráðs eru 5 karlar og starfsmaður nefndarinnar er karl en í henni situr engin kona. Í nefndinni sem endurskoðaði lögin sátu 3 konur og 1 karl og starfsmaður nefndarinnar var kona. Það þarf vart að taka það fram að nefndin lagði til að ákvæðið um jafnmargar konur og karla í nefndum ríkis og sveitarfélaga héldi sér. Nefndin hefur víst eftir vandlega athugun komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að varpa því fyrir róða sem reynst hefur svo vel.

Ýmsum þykir Ólafur Ragnar Grímsson hafa fært forsetaembættið nær því að vera konungsembætti en áður var þar sem prjál og tildur hafi aukist nokkuð við íslensku „hirðina“ í hans tíð. Þó má enn finna nokkurn mun. Karl prins af Wales er ríkisarfi bresku krúnunnar. Karl nýtur skattfrelsis samkvæmt lögum og hið sama gerir forseti Íslands. Karl greiðir engu að síður skatt af tekjum sínum eins og aðrir íbúar landsins. Hann tók það upp hjá sjálfum sér án þess að hafa lofað því áður. Ólafur Ragnar Grímsson lýsti því yfir áður en hann varð forseti Íslands að eðlilegt væri að forsetinn greiddi skatta eins og aðrir. Ólafur greiðir þó enga skatta og hefur ólíkt Karli og þrátt fyrir fyrri orð ekki óskað eftir að gera það.