Oftast endar rekstur velferðarkerfa hins opinbera á því að menn hugsa fyrst og fremst um velferð kerfisins fremur en velferð fólksins sem upphaflega stóð til að hjálpa. Smám saman öðlast þessi kerfi sjálfstætt líf, hafa tilhneigingu til að búa sér til óþörf verkefni og reyna með ýmsum ráðum að sýna fram á tilverurétt sinn sem ef til vill er löngu fyrir bí. Þessa dagana reyna ríkið og sveitarfélögin að finna leið til þess að afskrifa svonefnt félagslegt húsnæði um land allt. Ísafjarðarbær hefur til dæmis þurft að leysa til sín um 180 af þeim 260 félagslegu íbúðum sem eru í bænum og skuldir bæjarins vegna þessa velferðarævintýris eru um 1 milljarður króna! Svona velferðarkerfi eru ekki aðeins óþörf heldur verður það fé sem í þeim liggur ekki nýtt annars staðar.
Það vill oft gleymast þegar ríkið skattlegur fólk að féð hefði nýst í eitthvað annað. Það sést oftast sem ríkið gerir fyrir skattféð (hestamiðstöðvar, íþróttahallir, tónlistarhús, menningarborg) enda klappa viðkomandi hagsmunahópar stjórnmálamönnunum lof í lófa. Það sést hins vegar ekki hvað almenningur hefði gert við þessa fjármuni ef ríkið hefði ekki hirt þá.
Sérstakt átak stendur nú yfir hjá Neytendasamtökunum til að fjölga félögum, en að sögn formanns þeirra til margra ára, Jóhannesar Gunnarssonar, hefur félagsmönnum fækkað úr 23.000 í 15.000 á síðustu árum. Það sem háir Neytendasamtökunum er ekki nema að litlu leyti fækkun félagsmanna heldur frekar sú staðreynd að þau eru háð ríkisvaldinu. Slík samtök ættu vitaskuld að vera frjáls og óháð hinu opinbera, því stundum þarf að taka afstöðu gegn einhverju sem hið opinbera gerir neytendum. Þar hafa Neytendasamtökin ekki staðið sig. Á meðan þessi samtök fá milljónir króna frá hinu opinbera (5,5 á þessu ári og hefur farið hækkandi) er ekki von til að breyting verði til batnaðar. Og það versta er að formaðurinn virðist ekki átta sig á þessu, því hann kallar nú eftir „viðhorfsbreytingum varðandi áherslur í neytendamálum“ hjá nýjum viðskiptaráðherra. Á formanninum er jafnframt að skilja að þessi „viðhorfsbreyting“ eigi ekki síst að felast í auknu framlagi til samtakanna. Hann virðist ekki átta sig á að það eru skattgreiðendur – sem væntanlega eru einnig neytendur – sem verða þar með neyddir til að greiða til samtakanna í stað þess að gera það af fúsum og frjálsum vilja í gegnum félagsgjöld.