George Ryan, ríkisstjóri í Illinois í Bandaríkjunum, hefur frestað öllum aftökum þar til hann er orðinn þess fullviss að enginn sé tekinn af lífi saklaus. Dæmi er um að maður hafi beðið í 15 ár á dauðadeild fangelsis áður en sýnt var fram á sakleysi hans. Aftökunni hafði verið frestað ítrekað m.a. með tveggja daga fyrirvara. Ef Ryan ríkisstjóri meinar það sem hann segir um að enginn verði tekinn af lífi fyrr en hann verður fullviss um sekt viðkomandi, verður enginn tekinn af lífi í Illinois í bráð. Fullvissa er aldrei til staðar.
Aftökur eru ljótur blettur á Bandaríkjunum en þær njóta engu að síður mikils stuðnings meðal landsmanna samkvæmt skoðanakönnunum. Bandaríkjamenn hafa löngum verið manna ólíklegastir til að fela ríkisvaldinu óskorað vald yfir lífi fólks. Það kemur því nokkuð á óvart að þeir skuli treysta ríkinu til að ákveða hvort hinn ákærði lifir eða deyr. Ekkert virðist benda til þess að dauðarefsingar dragi út glæpum, en þó svo væri dygði það reyndar ekki til að réttlæta þær.
Íslendingar hafa borið gæfu til að velja sér bæði hagkvæmt og réttlátt kerfi til að stjórna fiskveiðum. Eins og sást í síðustu kosningum til Alþingis vilja flestir frekar hafa þetta kerfi áfram en taka upp eitthvað annað og ríkir því nokkuð góð sátt um það. Auðvitað eru alltaf einhverjir óánægðir, en óánægjan hefur minnkað eftir því sem kostir kerfisins hafa komið betur í ljós. Þó þrjóskast einhverjir enn við og nú síðast er kominn fram lítill hópur manna sem segist vilja láta ríkið bjóða upp kvóta útgerðarmanna.
Þessi „lausn“ á meintum „vanda“ við kerfið yrði dýrkeypt. Kerfið yrði síður hagkvæmt en það er í dag auk þess að verða ranglátt. Með því að bjóða kvótann upp með reglulegum hætti yrðu auknar sveiflur í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Sveiflurnar skapa óvissu og óvissa er dýr. Auk þess yrðu menn þvingaðir til viðskipta miklu oftar en þeir telja þörf á í dag og því má gera ráð fyrir að viðskiptakostnaður hækkaði verulega yrði svona kerfi tekið upp. Ýmis konar annað óhagræði mundi fylgja þessu, m.a. pólitískt, en engar líkur eru á að þingmenn og sveitarstjórnarmenn mundu allir sætta sig við niðurstöðu slíks uppboðs. Pólitísk inngrip mundu því vafalaust aukast. Síðast en ekki síst er þetta ranglát leið, m.a. vegna þess að margir þeirra sem nú eiga kvóta (jafnvel flestir, en ekki er vitað hversu margir hafa keypt sinn kvóta) hafa þegar keypt hann. Þeir væru því neyddir til að láta hann af hendi bótalaust og yrðu svo að kaupa hann aftur. Þetta telja sumir réttlátt, en það er þá að minnsta kosti skrýtið réttlæti.
Vef-Þjóðviljinn hefur bætt þjónustuna við þá lesendur sína sem vilja leggja útgáfunni lið með fjárstuðningi. Nú er hægt að senda slíkar óskir á dulkóðuðu formi með því að smella á hnappinn „Frjálst framlag“ hér til vinstri. Stuðningur lesenda stendur undir kostnaði við útgáfuna og kynningu á henni.