The Millenium Dome er mikið hús sem reist var í Lundúnum fyrir síðustu áramót. Stórhuga menn töldu nauðsynlegt að almannafé yrði lagt í þessa byggingu og fór Tony Blair forsætisráðherra Breta framarlega í þeim flokki. Átti þetta að vera tákn árþúsundamóta (byggt ári of snemma að vísu) og skipti ekki öllu máli hver kostnaðurinn yrði. Til að reikningsdæmið liti betur út var í áætlunum gert ráð fyrir því að á degi hverjum mundu 33.000 gestir heimsækja þetta hús til að skoða sýningar eða hvaðeina sem þar yrði að sjá. Nú hefur hins vegar komið í ljós að gestir í janúar eru aðeins um 10.000 á dag að meðaltali og hefur farið fækkandi eftir því sem líður á mánuðinn. Þetta gerist þrátt fyrir alla þá kynningu sem hið nýja hús hefur fengið.
Í tengslum við menningarborgarverkefnið í Reykjavík í ár hefur sumum orðið tíðrætt um hugmyndina um að hér verði byggt tónlistarhús. Í forsvari fyrir þeirri hugmynd eru ekki síður stórhuga menn en fóru fyrir hugmyndinni um The Millenium Dome. Hér vilja þessir menn að ríkið taki nokkur þúsund milljónir króna af skattgreiðendum til að byggja húsið og til að réttlæta bygginguna er svipuðum aðferðum beitt og í Bretlandi. Gert er ráð fyrir að notendur hússins á ári verði um 200.000 eða álíka margir og fara nú á tónleika í allri Reykjavík á hverju ári. Hvort skotið er jafn hátt yfir markið hér og í Bretlandi er engin leið að segja, en ljóst er að áætlanir vegna slíkra verka eru mjög litaðar af afstöðu þeirra sem vilja að ráðist verði í verkið.
Katrín Fjeldsted þingmaður setti fram þá skoðun í þætti Egils Helgasonar á Skjá 1 í gær að ríkið ætti að sjá um heilbrigðisþjónustu (og raunar fleira sem of langt mál væri að telja upp hér). Það er skoðun Katrínar að einstaklingar geti ekki leyst þessi mál farsællega með samstarfi sín á milli án þátttöku ríkisins. En Katrín lýsti sig einnig andsnúna því að ríkið ráðstafi trúnaðargögnum sjúklings og læknis í títtnefndan miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði án samþykkis sjúklings. Það ætti að blasa við Katrínu að forsenda þess að hægt sé að ráðstafa sjúkraskýrslum með þessum hætti er að ríkið fjármagni, eigi og reki heilbrigðiskerfið nánast frá toppi til táar. Þeir sem trúa á miðstýringuna eru ekki trúverðugir þegar þeir leggjast gegn afleiðingum hennar.