Mánudagur 3. janúar 2000

3. tbl. 4. árg.

Fyrir áramót lá frumvarp fyrir Alþingi til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Frumvarp þetta miðar að því að loka fyrir glufu í skattkerfinu. Þannig er að spariskírteini ríkissjóðs eru eignarskattsfrjáls en aðrar eignir fólks eru gerðar upptækar á 60 ára fresti með allt að 1,25% eignarskatti. Menn hafa því stundað það að taka lán sem nemur öllum eignum sínum rétt fyrir áramót og kaupa bréf í sjóðum sem myndaðir eru úr spariskírteinum ríkissjóðs. Bréfin eru svo seld eftir áramót og lánið greitt upp. Frumvarpið var samþykkt rétt fyrir áramót svo þeir sem fylgdust með störfum alþingis vissu viku fyrir áramót að búið var að loka fyrir glufuna. Vafalaust hafa ekki allir frétt af því og er það í raun stórfurðulegt að fjölmiðlar hafi ekki komið þeim upplýsingum til almennings. Hefur það raunar verið með þessa glufu í kerfinu eins og svo margar aðrar að það eru helst þeir sem hafa tíma eða fé til að setja sig inn kerfið sem geta nýtt sér glufurnar í því. Meðaljóninn sem hefur hvorki efni á endurskoðanda né tíma til að leita að glufunum þarf hins vegar að greiða skattinn.

Eignarskattar skila ríkinu 9.320 milljónum króna á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Útgjöld ríkisins til landbúnaðarmála verða svipuð eða 9.443 milljónir á næsta ári. Það er tillaga Vef-Þjóðviljans að úr því verið er að breyta lögum um eignarskatt á annað borð verði skatturinn eyrnamerktur landbúnaði og hér eftir nefndur eignarskattur til stuðnings landbúnaði. Það má gera ráð fyrir að stuðningur við ríkisframlög til landbúnaðar minnkaði hratt ef það kæmi fram þegar menn fá rukkun fyrir eignarskattinum að hann renni allur til landbúnaðarins. En til að auðvelda skattalækkun er nauðsynlegt að stuðningur við slík verkefni minnki.

Frjáls framlög lesenda færa Vef-Þjóðviljanum það fé sem þarf til útgáfunnar og kynningar á henni.